139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

erlend staða þjóðarbúsins.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Hafi Seðlabankinn talið mat sitt svona óáreiðanlegt á sínum tíma hefði hann átt að gera aðeins minna úr því en ekki tefla þessu fram sem eigin röksemdafærslu fyrir því að Íslendingum væri óhætt að bæta enn á sig skuldum. Það er reyndar rétt að þarna er að miklu leyti um skuldir einkaaðila að ræða en þeir munu þurfa gjaldeyri, þeir munu þurfa að ganga í sama gjaldeyri og ríkið, til að standa undir afborgunum af erlendum lánum og þess vegna er ekki hægt að líta fram hjá því.

Ekki er heldur hægt að halda því fram að þetta hafi komið algerlega á óvart. Þetta var ekki bara fyrst eftir hrunið eins og hæstv. fjármálaráðherra nefnir, þetta er í raun alveg þangað til núna að skekkjan er svona óhemjumikil. En litlir hópar, andspyrnuhópar úti í bæ, voru fyrir löngu búnir að reikna þetta allt út og reyna að benda Seðlabankanum og ríkisstjórninni á hver raunveruleg staða væri. En iðulega var gert lítið úr því og þær upplýsingar látnar hverfa.

Kallar þetta ekki á nein viðbrögð að mati hæstv. fjármálaráðherra, svona gríðarleg skekkja? Kallar hún að minnsta kosti ekki á það að menn fari yfir aðrar tölur bankans og hvernig hann vinnur sína vinnu?