139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fjárfestingar í orkufrekum iðnaði.

[10:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra var að fara yfir þau fjölmörgu verkefni sem þegar eru farin af stað og líka þau fjölmörgu verkefni sem eru á teikniborðinu. Það er svo ánægjulegt að við erum í þeirri stöðu að samkeppni er að verða um nýtingu á þeirri orku sem framleidd er í landinu og ánægjulegt að segja frá því að eftirspurnin eftir orku frá Landsvirkjun er metin gróflega upp á 1.600 megavött. Auðvitað verður ekki framleitt það mikið af orku á komandi árum en það er ánægjulegt að eftirspurnin skuli vera eins mikil og raun ber vitni.

Hæstv. forsætisráðherra er í ræðu sinni væntanlega að vísa í þá staðreynd að mál eru komin vel á veg á Norðausturlandi. Það er alveg ljóst að á komandi mánuðum verður gert samkomulag við einn eða fleiri kaupendur að orkunni sem til er í Þingeyjarsýslunum. Við vorum að ljúka gerð framlengingar á viljayfirlýsingu við sveitarfélögin á svæðinu þar sem Tjörneshreppur er líka kominn inn. Þar erum við að fara að vinna að því í sameiningu að undirbúa svæðið fyrir þessa atvinnuuppbyggingu.

Síðan ræða hæstv. forsætisráðherra var haldin hafa mál því miður þróast með þeim hætti að HS Orka og Norðurál eru komin með sín mál fyrir gerðardóm þannig að það mál leystist ekki millum aðila eins og vonir okkar stóðu til og þessir aðilar voru líka bjartsýnir um. En það mál mun þá væntanlega skýrast í júlí þegar áætlað er að gerðardómurinn falli.

Virðulegi forseti. Það er mjög fjölmargt á döfinni. Við erum mjög ánægð með það í iðnaðarráðuneytinu að búið er að skrifa undir þrjá nýja fjárfestingarsamninga við fyrirtæki sem eru að fara af stað í framkvæmdir og við erum að vinna að gerð þess fjórða. Töluverð hreyfing er því komin á fjárfestana og við finnum að sóknarþunginn inn í landið er að aukast, eftirspurnin er að þyngjast.