139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fjárfestingar í orkufrekum iðnaði.

[10:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Innantóm loforð, segir hv. þingmaður.

Staðreynd nr. 1: Átta til tíu aðilar eru í viðræðum við Landsvirkjun um kaup á orku frá þeim á Norðausturlandi.

Staðreynd nr. 2: Við erum búin að samþykkja lagagrunn undir rammaáætlun.

Staðreynd nr. 3: Hún mun líta dagsins ljós fyrir næsta vetur.

Staðreynd nr. 4, virðulegi forseti, sorgleg staðreynd: HS Orka og Norðurál náðu ekki saman á viðskiptalegum forsendum um að halda áfram með samninga sín í milli sem hefði þá tryggt að Helguvík hefði farið af stað. Þá staðreynd ræður ríkisstjórnin einfaldlega ekki við þegar menn ákveða að fara fram með þeim hætti að hefja viðskiptasamband á grunni dóms. En það var val þessara aðila, þessara fyrirtækja, því miður.

Við horfum fram á bjartari tíma. Samningar millum fyrirtækjanna, þ.e. orkusalans og orkukaupenda, eru ekki gerðir í þingsölum og þess vegna er það ekki okkar, þingmanna, að standa hér og úttala okkur (Forseti hringir.) um einstaka aðila sem eru í viðræðum við orkufyrirtækin. Þess vegna hljómar þetta mögulega eins og við höfum engar fréttir að færa (Forseti hringir.) en fréttirnar eru þær að góður gangur er í viðræðum milli orkusala og orkukaupenda hér í landinu. (Gripið fram í.)