139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fangelsismál -- útsendingar sjónvarpsins.

[10:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fangelsismálin hefur fjármálaráðuneytið stutt áður dómsmálaráðuneytið og nú innanríkisráðuneytið í því að leysa úr þeim málum, það hefur ekkert staðið upp á það. Við studdum dómsmálaráðuneytið í því að taka Bitru á leigu til að leysa úr brýnni þörf sem þá var og bættum við fjárveitingum til að unnt væri að standa straum af þeirri starfsemi. Þá var sömuleiðis ákveðið að setja í skoðun að koma af stað byggingu á gæsluvarðhaldsfangelsi. Það hefur verið í undirbúningi síðan og þar hafa verið skoðaðir bæði staðsetningarkostir og síðan fyrirkomulag framkvæmdarinnar.

Það er rétt að sú hugmynd fór af stað á fyrra ári að þetta gæti, ef þannig réðist, orðið hluti af framkvæmdum sem ríkið stæði fyrir en þó í samstarfi við aðila eins og lífeyrissjóði eða aðra og að því leyti til hliðstætt byggingu Landspítalans eða vegaframkvæmdum o.fl., þannig að sá möguleiki hefur verið opinn og verið til skoðunar. Útboðsgögn eru því sem næst tilbúin eftir því sem ég best veit þannig að það styttist í ákvarðanatöku um það hvernig í þessa framkvæmd verður farið. Þá ráðast lyktir málsins, bæði hvað varðar staðsetningu og fyrirkomulag framkvæmda.

Varðandi útvarpsgjaldið eru það ríkistekjur, það er rétt að hafa það í huga, það eru markaðar ríkistekjur sem eru lagðar á til að mæta í grófum dráttum þeim útgjöldum sem ríkið hefur af rekstri Ríkisútvarpsins. Varðandi þær breytingar í tækni sem eru að verða, að hliðrænar útsendingar eru að leggjast af, og þá þarf að fá myndlykla til að taka við hinum stafrænu sendingum, hefur það aldrei verið meiningin að það væri hluti af útvarpsgjaldinu frekar en sjónvörpin sjálf eða annar tæknibúnaður sem þarf til að ná útsendingunum, hvort sem þær eru hjá ríkissjónvarpinu eða öðrum sjónvarpsstöðvum, þegar um stafræna útsendingartækni er orðið að ræða. Ég held að það sé langsótt að ætlast til þess að útvarpsgjaldið beri þann kostnað.