139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

skuldaniðurfelling Landsbankans.

[10:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ríkið á 81,33% í Landsbankanum í gegnum Bankasýsluna sem hæstv. fjármálaráðherra byggði upp. Nú er þessi banki farinn að leika Hróa hött og lækkar vexti fyrir árin 2009, 2010 og 2011 um 20%, sem menn hafa greitt þar inn. Hann ætlar að beita 110% reglunni án tillits til annarra eigna sem menn eiga, þ.e. menn geta átt dúndurinnstæður og allt slíkt og þeir fá samt sem áður lækkun ef þeir skulda í íbúðarhúsnæðinu sínu 130%.

Þessi banki er í þeirri stöðu að sjávarútvegurinn er aðalskuldari hjá honum. Nú er eins og kunnugt er verið að ræða frumvörp á Alþingi sem sumir telja að geti skaðað sjávarútveginn mjög mikið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann beri yfir höfuð einhverja ábyrgð á umræddri ákvörðun stjórnar Landsbankans, að vera svona góð við allt og alla, og hvort hann beri þá ekki ábyrgð á uppbyggingu kerfisins með Bankasýsluna og Landsbankann, hann tilnefnir jú stjórn Bankasýslunnar.

Það kom fram í fréttum að ráðherra ætlar að fara að skattleggja þessa endurgreiðslu á vöxtum. Vextirnir eru jú gjöld sem fólk hefur greitt og bankinn ákveður vextina og er sem sagt að ákveða vextina aftur í tímann og þá eru þetta allt í einu orðnar tekjur hjá fólki. Hvaða hugleiðingar eru á bak við það?

Svo er það spurningin: Hvaða áhrif hefur þetta á Íbúðalánasjóð og aðra banka? Hér hafa komið fram vaskir stjórnmálamenn, Helgi Hjörvar og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og sagt að Íbúðalánasjóður verði að fylgja í kjölfarið og vera jafngóður.