139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

skuldaniðurfelling Landsbankans.

[10:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er sem fyrri daginn, það ber ekki nokkur maður ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er bara kerfið eða þá Alþingi sem samþykkti lög. Það er eins og það sé enginn stjórnarmeirihluti hér. Hæstv. ráðherra ber akkúrat enga ábyrgð á þessu.

Hann segir að það sé einfeldningslegt þegar menn bera þetta saman við stöðuna í Íbúðalánasjóði. Ég var ekki að gera það. Það var hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem gerði það og það var hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, sem gerði það. Þeir sögðu báðir að Íbúðalánasjóður stæði ekki undir nafni ef hann gerði ekki svipaða hluti og Landsbankinn.

Það vill svo til að íslenska ríkið á Landsbankann. Það ber ábyrgð á skuldabréfi sem Landsbankinn skuldar skilanefndinni upp á 300 milljarða kr., sem er meira að segja með veði í innlánum, og aðaleigandi þess skuldabréfs í gegnum skilanefndina er breska og hollenska ríkið og innlánstryggingarsjóður.