139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

sameining háskóla landsins.

[11:02]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á mikilvægi rannsókna og háskólamenntunar með því að spyrja hæstv. umhverfisráðherra, sem nú gegnir einnig störfum menntamálaráðherra, um sameiningu háskóla landsins.

Spurt er: Hyggst ráðherrann á næstu mánuðum taka einhverjar þær ákvarðanir sem stuðla að sameiningu háskóla landsins?

Á undanförnum árum hefur nokkur árangur náðst í sameiningu rannsóknastofnana en á sama tíma hefur háskólum fjölgað í landinu. Á 10 ára tímabili, frá 1997, urðu fimm nýjar stofnanir að háskólum og tvær til viðbótar hófu kennslu á háskólastigi. Formlegt samstarf þessara háskóla er mjög takmarkað. Þrjár atrennur voru gerðar að sameiningu, tvær þeirra gengu ekki eftir. Þrjár skýrslur voru unnar árið 2009 sem allar nefna kosti þess að sameina háskóla landsins. Samvinna háskólanna er mikilvæg en sameining er miklu betri kostur hvort sem litið er til vísindastarfs eða háskólakennslu, svo ekki sé nú talað um þá hagræðingu sem felst í sameiningunni.

Aukið samstarf opinberra háskóla sem verið er að vinna að er vissulega mikilvægt og skref í rétta átt. En betur má ef duga skal. Fyrirkomulag núverandi samstarfsvettvangs opinberra háskóla leggur ekki grunninn að sameiningu háskólanna á næstu missirum. Innan hans er rætt um afmarkaða samvinnu og nær eingöngu um tæknilegar útfærslur eins og um innritun nemenda og gæðakerfi fyrir starfsmenn. Samstarfsvettvangurinn ræðir ekki um sameiningu háskólanna. Frumkvæði að sameiningu mun ekki koma frá skólunum sjálfum. Sameining háskólastofnana er það viðkvæmt mál að frumkvæðið verður að koma frá þingi, ráðherra eða ríkisstjórn.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða skref hyggst hún stíga á næstu missirum til þess að sameina háskóla landsins?