139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

sameining háskóla landsins.

[11:04]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og býð jafnframt hann velkominn til þings. Því er til að svara varðandi þá spurningu sem fram kom í máli þingmannsins að unnið er samkvæmt stefnu um samstarfsnet opinberra háskóla, eins og kunnugt er. Markmið þeirrar stefnu er í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags, í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna og í þriðja lagi að stuðla að öflugri, fjölbreyttri háskólastarfsemi á landinu öllu. Það eru yfirmarkmiðin.

Við mótun stefnunnar var tekið mið af skýrslu erlendra sérfræðinga sem þingmaðurinn vitnaði til í fyrirspurn sinni sem gerð var veturinn 2008–2009, en 9. maí síðastliðinn var stigið stórt skref um aukið samstarf opinberu háskólanna fjögurra, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla, þegar undirritaður var samningur um stoðþjónustu á ákveðnum sviðum. Þar var tekin ákvörðun um sameiginlegt upplýsingakerfi fyrir nemendur og kennslu og um leið samræmt kerfi fyrir akademískt mat á starfsmönnum og vegna ráðninga varðandi framgang og launabreytingar.

Til upplýsingar er stefnt að víkkun þessa samnings svo hann taki til fleiri sviða þar sem jafnframt yrði fjallað um gæðaviðmið og gæðaeftirlit í meistara- og doktorsnámi. Það er gríðarlega mikilvægt að þar sé um samræmda sýn og samræmdar reglur að ræða, jafnframt stuðning við kennara, kennslufræðileg ráðgjöf og þjálfun. Menn horfa líka til framtíðar varðandi uppbyggingu á auknum tæknilausnum sem auðvelda fjarfundi eða fjarkennslu og þráðlaus netsamskipti. Þessar samlegðaráætlanir eru því allar saman í gangi. Samstarf auðveldar auðvitað aðgengi allra og nýtir betur þann mannauð sem fyrir hendi er í opinberu háskólunum.

Í síðasta mánuði var sett í gang verkefnisstjórn sem mun vinna að því enn (Forseti hringir.) frekar.