139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru svo sem ekki mikil tíðindi þótt hv. þingmaður upplýsi okkur um að skerða eigi aflaaukninguna. Ég gerði ekki ráð fyrir að skerðing ætti að vera á aflaminnkuninni — eða hvað? (Gripið fram í.) Nú eiga þeir sem hafa kvóta að taka á sig skerðingarnar en þeir njóta ekki aukningarinnar nema að hluta til. Þetta eru því ekki mikil tíðindi.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann vefengi þá útreikninga mína að þegar þorskafli verði kominn í 250 þús. tonn verði búið að skerða aflahlutdeildirnar um 20%–25%.

Hv. þingmaður spurði mig síðan um miklar skerðingar á Vestfjörðum. Það er alveg rétt. Við brugðumst hins vegar við með því að búa m.a. til nýtt og öflugt smábátakerfi sem hefur lagt grunninn að því í ýmsum byggðum, ásamt öðru, að útgerð þar hefur verið að ná vopnum sínum aftur. Nú er gengið þannig um garða í frumvarpinu að þessi fyrirtæki verða sérstaklega fyrir skerðingunni. Þau munu t.d. ekki njóta aukningarinnar í þorskinum sem fram undan er. Það hefði verið mjög mikilvægt fyrir fyrirtækin sem eru að ná vopnum sínum aftur. Þess vegna undrar það mig (Forseti hringir.) að hv. þingmaður, sem þekkir mjög vel til aðstæðna og ég veit að ber mjög hlýjan hug til byggðanna, skuli með tilvísun til sögunnar ganga fram með þessum hætti.