139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að sú aukning við byggðatengdar aðgerðir í gegnum potta muni ekki nýtast smábátaútgerð vítt og breitt um landið þar sem ég veit að hv. þingmaður ber hag smábátaútgerða fyrir brjósti.

Mikið hefur verið rætt um að frumvarpið sem liggur fyrir hafi þær afleiðingar að draga muni úr atvinnu og skip verði bundin við bryggju og aflaheimildir hverfi af stöðunum. Hverja telur hv. þingmaður njóta helst góðs af þessu frumvarpi? Hvaða útgerðaraðilar munu njóta góðs af aflaheimildunum því að ekki hverfa þær úr landi? Hvaða útgerðarflokkar, staðir og aðilar munu helst njóta góðs af aflaheimildunum (Forseti hringir.) ef þær fara frá einum aðila til annars?