139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi hæstv. utanríkisráðherra skilið það svo að ég væri með árásir á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá er ekki svo. Ég var með harðar árásir á þetta vitlausa frumvarp sem hæstv. ráðherra er látinn bera inn í þingið.

Varðandi strandveiðiaukninguna sem hæstv. utanríkisráðherra spurði mig um vil ég segja þetta: Ég hef gagnrýnt það mjög harðlega hvernig þessum strandveiðipottum er útdeilt á milli landsvæða og þar hallar sérstaklega á Vestfirði. Það er ljóst mál að það sem þarf fyrst og fremst að gera er að auka réttlætið í þessu. Hæstv. ráðherra gæti aflað sér þeirra upplýsinga að ef við fengjum afla af strandveiðunum með sambærilegum hætti á Vestfjörðum og okkur bæri mundi muna um 300 tonnum.

Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn gera? spurði hæstv. ráðherra. Við höfum svarað því í endurskoðunarnefndinni sem við tókum þátt í þar sem við náðum samkomulagi við nánast alla um tilteknar breytingar í sjávarútvegi og ég væri til í að standa að slíkum breytingum.