139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var mikil yfirlýsing sem lesa mátti úr máli hv. þingmanns. Hann taldi það af og frá að hann hefði verið að ráðast á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég taldi að úr munni hv. þingmanns væri það árás þegar því er haldið fram að verið væri að teppaleggja fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. En hv. þingmaður segir að það hafi ekki verið árás þannig að ég vænti þess að þarna séu að koma í ljós ákveðin sinnaskipti hjá þingmanninum sem að vísu komu einu sinni fram í þær sex klukkustundir sem hann gegndi embætti forsætisráðherra fyrr í sinni tíð.

Ef Vestfirðir eru afskiptir varðandi strandveiðikvótann skulum við bara reyna að komast að samkomulagi um með hvaða hætti við útdeilum honum þannig að réttlætinu sé náð. Ég tel og marka það af samtölum mínum við Vestfirðinga sem ég þekki nokkra að þeir séu mjög glaðir yfir þeim áformum sem liggja fyrir um að auka strandveiðikvótann.

Að öðru leyti vil ég að menn fari með friði en ekki ófriði og sverði eins og (Forseti hringir.) hv. þingmaður er farinn að leggja í vana sinn þegar hann talar um sjávarútvegsmál.