139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi það verið árás á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að benda á þá staðreynd að með þessu frumvarpi er hann að leggja rauða dregilinn (Gripið fram í.) gagnvart aðildarumsókninni að Evrópusambandinu þá hefur það kannski verið hól til hæstv. utanríkisráðherra sem hefur örugglega haft eitthvað með þessi mál að gera. (Gripið fram í.)

Varðandi strandveiðikvótann vil ég einfaldlega segja það sem ég hef margoft sagt: Það verður að hafa eitthvert réttlæti í úthlutuninni, en svo er ekki. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra mundi komast að því ef hann ræddi við Vestfirðinga að þeir eru hundóánægðir með fyrirkomulagið (Gripið fram í.) eins og það er núna. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur þetta í hendi sér, formaður og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vilja gera þessar breytingar en hæstv. ráðherra þybbast við. Það er ekki mikil lífsbjörg í strandveiðunum fólgin á Vestfjörðum þegar róa má fjóra mánuði á ári í þrjá til fimm daga í senn í mánuði. Það sjá allir. Kannski er einhver rómantískur ljómi yfir þessu en þetta er ekki mikil viðbót (Forseti hringir.) fyrir vestfirskt atvinnulíf. (Utanrrh.: Talaðu um ... á Hólmavík!)