139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég deili þeirri skoðun með ræðumanni að við eigum að byggja upp öflugan sjávarútveg og tryggja góð rekstrarskilyrði til langs tíma. En það kom mér á óvart í ræðu hv. þingmanns að hann notaði orðið „pottajukk“. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hann hafi talað fyrir þeirri hugmynd að hér yrði skipt í potta og þá langar mig að inna hann eftir því hvaða hlutfall hann telji vera eðlilegt á milli þess sem við kölluðum stóra kerfið og síðan ívilnana og bóta og annars slíks sem fer í hinn hlutann.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um þá deilu sem hefur orðið um það hvort þeir sem eru með uppsjávarfisk eigi að skila inn í bótaflokkana, sem er tillaga hv. þingmanns, hvort hætta eigi við það vegna þess að einhver ágreiningur sé um það milli aðila.

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé mikilvægt að setja þak á strandveiðar. Gerð er tillaga um að setja inn 3 þús. tonn og þar með verði ákveðið að það verði ekki hærra hlutfall.

Í fjórða lagi (Forseti hringir.) langar mig að heyra, eftir að hafa setið með honum í sáttanefnd, hvort hann sé ekki sammála þeim byggðasjónarmiðum sem þar komu fram (Forseti hringir.) um að það ætti einmitt að styrkja byggðir og atvinnu almennt á landsbyggðinni.