139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:48]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að fylgja þessu aðeins betur eftir varðandi byggðasjónarmiðin og þá líka hvaða hlutfall á að vera á milli þessara tveggja stóru potta eða flokka eins og það heitir núna í frumvarpinu. Þegar talað er um 3 þús. tonna aukningu í strandveiðum er líka verið að tala um að verja 160 þús. tonnin í þorski, þ.e. að þarna sé verið að taka meira í pottana þegar aukningin verður umfram þetta.

Mig langar líka að heyra aðeins frá hv. þingmanni um samningana, því að hann ræddi það svolítið, hvaða skilyrði hann telur eðlilegt að gera varðandi samninga vegna þess að það er mikilvægt að halda því til haga að þeir sem fá aflaheimildir til langs tíma eru að gangast undir ákveðið regluverk. Er ekki eðlilegt að setja það í kjarasamninga að hafa staðið skil á opinberum gjöldum, skilað skattframtölum og öðru slíku og í þriðja lagi kannski um meðferð afla, sem mér finnst vera mikilvægt?

Í síðasta lagi langar mig til að spyrja af því að við höfum rætt um hvað veiðigjaldið megi vera hátt. Það kemur fram í skýrslunni sem við unnum saman að öll útgerð í landinu mundi þola u.þ.b. 20 kr. á kíló án þess að það mundi valda henni miklum erfiðleikum í (Forseti hringir.) sambandi við gjaldtöku. Gjaldtakan fer eftir hækkunina upp í 13 kr. á kíló. Er þá ástæða til að óttast?