139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það alveg heiðarlega að ég tel að það sem við erum að setja í potta núna sé svona nálægt því sem væri eðlilegt að gera til frambúðar. Ég tel hins vegar miklu eðlilegra að nýta það mikla hagræði sem sjávarútvegurinn hefur skapað og gert það að verkum m.a. að ríkissjóður er að fá beinar tekjur bara af auðlindagjaldinu, ef þetta gengur allt saman eftir, upp á 5 milljarða kr. Mér fyndist miklu eðlilegra að nýta þetta hagræði sérstaklega gagnvart minni byggðum, sjávarútvegsbyggðum, sem hafa með einhverjum hætti farið halloka í sjávarútvegskerfinu. Ég held að það sé miklu eðlilegra vegna þess að það eru einhver takmörk fyrir því hvað við getum notað sjálft sjávarútvegskerfið til að bregðast við þessum vanda öðruvísi en svo að við endum bara í því að þetta sé eitt allsherjarbyggðakerfi. Það er einmitt sá vandi sem menn hafa lent í víða í löndunum í kringum okkur þar sem menn hafa sagt sem svo: Sjávarútvegurinn er svo mikilvægur í byggðunum, hann er svo mikilvægur félagslega að við verðum að hafa sjávarútvegskerfið félagslegt og byggðalegt. Það þýðir að lífskjör verða verri og fólkið vill ekki búa í slíkum byggðum.