139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að bregðast svona fljótt við og gera hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra boð um að óskað sé eftir nærveru þeirra. Mér finnst, virðulegi forseti, að margir hv. stjórnarþingmenn sýni þessari umræðu ekki mikinn áhuga, afskaplega fáir eru í salnum og afskaplega fáir til að verja málstaðinn.

Ég tek undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan. Næstur á mælendaskránni er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þegar hann flutti ræðuna um fyrra frumvarpið þurfti hann að gera það eftir miðnætti á miðvikudegi og þá var kominn uppstigningardagur. Það var ekki nokkur maður í salnum að hlusta á ræðuna og enn á það að vera svo. Það verður tómur salur þegar hv. þingmaður, sem er formaður annars stærsta stjórnarandstöðuflokksins, heldur ræðu sína. Mér finnst þetta ekki til fyrirmyndar og í raun og veru til háborinnar skammar að hv. þingmönnum skuli vera boðið upp á það.

Það kom líka í ljós að sennilega er það einsdæmi í þingsögunni að halda þingfund á þessum merka hátíðisdegi kirkjunnar, á uppstigningardegi, að vera með fund fram yfir kl. tvö og enn á hv. þingmaður að tala í næsta máli fyrir (Forseti hringir.) tómum sal og forustumenn ríkisstjórnarinnar sýna ekki einu sinni þá virðingu sem hv. þingmaður á skilið.