139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er mikið rætt um mikilvægi og gagnsemi þess að ná sem víðtækastri sátt og samstöðu um sjávarútvegsmálin. Það var búið að vinna alveg ótrúlega mikla vinnu með það að markmiði að ná víðtækri sátt undir forustu núverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar. Allir flokkar á Alþingi og önnur af hreyfingunum tveimur, þ.e. sú Vinstri græna, voru langt á veg komin með að ná sögulegri sátt um þessi mál. Það sama átti við um atvinnurekendur og launþega og ýmsa hagsmunaaðila. Í fyrsta skipti líklega í sögu umræðu um þessi mál leit út fyrir að sátt næðist.

En þá er horfið frá því óvænt og skyndilega að því er virðist af hálfu hæstv. forsætisráðherra sem virðist vilja umfram allt viðhalda ósætti um þessi mál af pólitískum ástæðum til að nota sjávarútvegsmálin, eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, undirstöðuatvinnugrein í pólitískum leikjum. Við hljótum að vera sammála um að fiskveiðistjórnarkerfið eigi að vera hagkvæmt fyrir samfélagið í heild og sanngjarnt. Ef við ætlum að reyna að ná sátt hljótum við að ætla að ná sátt um a.m.k. þetta tvennt, hagkvæmni og sanngirni.

Hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa kallað eftir því þegar þau ræða þessi mál í fjölmiðlum, því að ekki gera þau það í þinginu, að menn ræði málin án upphrópana og með rökum. Það er nokkuð kúnstugt því að fáir hafa beitt jafnmiklum upphrópunum í þessu máli og einmitt hæstv. forsætisráðherra sem talar ekki um þá sem starfa í þessari undirstöðuatvinnugrein öðruvísi en að uppnefna þá, kalla þá öllum illum nöfnum, og er þá eitt látið yfir alla ganga, sama hvernig þeir hafa staðið að verki.

Við skulum reyna að ræða þetta mál með rökum og án upphrópana og einbeita okkur til að byrja með að hagkvæmni og sanngirni. Ég er reyndar hlynntur breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Við höfum séð á þeim reynslutíma sem kominn er á kerfið að ýmislegt mætti betur fara. Ég er til að mynda sammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tölurnar liggja ekki fyrir þegar verið er að leggja mat á hluti eins og það að halda bæjum og þorpum í byggð. Ég tel mikilvægt að fiskveiðistjórnarkerfið sé til þess fallið að stuðla að dreifingu, að sem flestir staðir sem byggst hafa upp á sjávarútvegi fái þrifist áfram, að eyða óvissu þannig að menn geti byggt upp á þessum stöðum. En það er einmitt einn af mörgum göllum við frumvarpið að það er ekki til þess fallið að eyða óvissu. Það viðheldur óvissu í öllum þessum bæjum og þorpum vítt og breitt um landið svo menn þora ekki að fjárfesta, þora ekki að ráðast í uppbyggingu á hverjum stað fyrir sig. Þar af leiðandi eru frumvörpin ekki til þess fallin að ná því sem við hljótum báðir að vera sammála um, ég og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að efla byggð sem víðast um landið. Þvert á móti er það til þess fallið að viðhalda óvissu.

Einnig gef ég mér að við séum sammála um, ég sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að það sé mikilvægt að stuðla að nýliðun í greininni. Það gerir þetta frumvarp sannarlega ekki. Það hvetur miklu frekar til þess að þeir sem hafa haft tækifæri og þekkingu til að ráðast í útgerð fari að gera eitthvað annað vegna þess að það er enginn í aðstöðu til að skuldsetja sig, taka lán til að fara í sjávarútveginn þegar ekki má með nokkru móti veðsetja heimildirnar eða skipin sem hafa þær heimildir. Þetta frumvarp vinnur því gegn því sem ég hefði talið vera meginmarkmið mitt og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sjávarútvegi. Það er enda svo að ekki hefur enn, eftir því sem ég best, fundist veit hagfræðingur eða maður með þekkingu á hagrænum áhrifum þessa frumvarps sem mælir því bót. Jafnvel menn sem varið hafa ríkisstjórnina í ótrúlegustu málum sjá ástæðu til að gagnrýna þessi frumvörp mjög harðlega og benda á þá gríðarlegu efnahagslegu hættu sem fólgin er í breytingunum enda eru þær til þess fallnar að vega að þeirri hagkvæmni sem verið hefur byggð upp í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum og það er ekki lítið.

Við skulum rétt sem snöggvast hverfa aftur í tímann til ársins 1980 eða áranna þar í kring. Hvernig var staða íslensks sjávarútvegs þá? Það var miklu meira veitt. Afli var miklu meiri en nú er en samt var sjávarútvegurinn alltaf á hausnum. Nánast hver einasti fréttatími byrjaði á einni, tveimur eða þremur fréttum um vanda sjávarútvegsins og alltaf þurfti ríkið að grípa inn í, ekki hvað síst með gengisfellingum, með verulegu tjóni fyrir samfélagið, allt til að halda sjávarútveginum gangandi. Nú er aflinn miklu minni en þrátt fyrir það skilar íslenskur sjávarútvegur þjóðarbúinu gríðarlegum ávinningi. Hann er ekki baggi á samfélaginu, þvert á móti er hann undirstöðuatvinnugrein sem skiptir sköpum um að afla þess gjaldeyris sem við þurfum á að halda.

Hvernig er samanburðurinn við önnur lönd? Nánast um allan heim eru fiskstofnar í hættu. Þeir eru ofveiddir. Dugar það til að halda sjávarútveginum í þeim löndum sem ofveiða auðlindina gangandi? Nei. Víðast hvar er sjávarútvegur ríkisstyrktur, honum er haldið gangandi á framfæri ríkisins við að ofveiða stofnana, enda er það svo að íslenska fyrirkomulagið er oftar en ekki nefnt sem fyrirmynd. Þessi ríkisstjórn hefur mikinn áhuga á að ganga í Evrópusambandið. Þar tala menn um íslenska sjávarútvegskerfið sem fyrirmynd. Á sama tíma vegur þetta sama fólk að þessu kerfi, að kostum þess. Í stað þess að breyta göllunum vill það innleiða aftur þá óhagkvæmni sem var til staðar og í rauninni enn þá meiri óhagkvæmni vegna þess að það er beinlínis verið að tína hagkvæmnina út úr kerfinu og skilja gallana að mestu leyti eftir.

Ein af þeim rökum sem oftast eru nefnd fyrir því að það þurfi að gera þessar breytingar er sú að sjávarútvegurinn skili um þessar mundir svo miklum hagnaði. Það virðist vera eitur í beinum þessarar ríkisstjórnar að fyrirtæki skili hagnaði. Það fylgir þá ekki sögunni að sjávarútvegsfyrirtækin þurfa verulegan hagnað til að greiða niður skuldir vegna þess að megnið af þeim kvóta sem nú er verið að veiða, vel yfir 90%, líklega í kringum 95%, er kvóti sem var keyptur. Það er ekki þessi svokallaði gjafakvóti. Það er kvóti sem menn hafa skuldsett sig til að geta veitt. Það þarf að borga niður þessar skuldir, í mörgum tilvikum stökkbreyttar skuldir. Það þarf líka að vinna upp það tjón sem sjávarútvegurinn beið af því að hér var gengi krónunnar allt of hátt skráð um margra ára bil á meðan öll áherslan var á útrás á fjármálamarkaði. Ekki voru þá miklar áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins hjá þeim flokkum sem nú sjá ofsjónum yfir því að hann skili loksins hagnaði eftir þetta erfiðleikatímabil. Nei, þegar sjávarútvegurinn var kominn í þá stöðu að vera sú atvinnugrein sem dregur vagninn, kemur okkur út úr kreppunni, skapar gjaldeyri — og ekki er vanþörf á eins og við sjáum á nýjum tölum Seðlabankans sem hefur loksins uppfært stöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum og sýnir að við munum þurfa allan þann gjaldeyri sem við mögulega getum komið höndum yfir — á enn að skerða stöðu sjávarútvegsins til að skapa gjaldeyri og stefna greininni í fullkomið uppnám.

Ég velti því fyrir mér hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mundi bregðast við ef verulegur viðsnúningur yrði í landbúnaði. Nú er mikið talað um það í fréttum erlendis að matvælaskortur sé að verða vandamál í heiminum. Fyrirsjáanlegt sé að matvælaverð, verð landbúnaðarafurða, muni hækka um fyrirsjáanlega framtíð. Það er skortur á ræktarlandi, fólki fjölgar ört, sérstaklega í borgum, og eftirspurn, ekki hvað síst eftir kjöti, fer mjög vaxandi. Ef það má verða til þess að íslenskur landbúnaður rétti úr kútnum og bændur sem búið hafa við kröpp kjör allt of lengi fara að eiga smávegis afgangs, mun ríkisstjórnin þá sjá ofsjónum yfir því líka? (Gripið fram í: Auðlind.) Mun hún leitast við að fyrna þá auðlind sem landið er, taka dálitla ræmu af hverjum bónda á hverju ári? Það hefur reyndar verið vert víða, sú aðferð var t.d. notuð í Austur-Þýskalandi. Þar var jörðum skipt upp, smátt og smátt tekið af þeim sem höfðu ræktað þær og örlitlum blettum útdeilt á borgarana. Afleiðingin varð sú að hinn hagkvæmi landbúnaður Austur-Þýskalands hrundi og landið lenti í erfiðleikum með að brauðfæða þjóðina. Má búast við slíku frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nú þegar staðan breytist vonandi til batnaðar í landbúnaði?

Auðvitað vekur það athygli með hvaða hætti þetta mál er komið inn í þingið. Það kom inn tveimur mánuðum eftir að frestur til að skila inn frumvörpum rann út, enginn vissi hvenær ráðherrann ætlaði að mæla fyrir því eða hvort hann ætlaði að mæla fyrir því yfir höfuð. Svo kom í ljós þegar stjórnarliðar fóru að ræða málið, þeir sem á annað borð töldu sig geta tjáð sig eitthvað um það, að engin samstaða var um málið í ríkisstjórninni og virðist blasa við að ekki sé meiri hluti fyrir því í þinginu. Hvers vegna er þá verið að leggja það fram núna og reyna að troða því í gegn með offorsi? Meira að segja lýsti einn stjórnarliði frumvarpinu þannig að það væri eins og það hefði verið skrifað af simpönsum. Það var stjórnarliði, bandamaður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og ég nefndi áðan eru helstu álitsgjafar um þessi mál, meðal annars þeir sem hafa verið ríkisstjórninni hliðhollir, alfarið andsnúnir þessum tillögum.

Hvernig stendur þá á því að ríkisstjórnin keyrir þetta svona hart áfram? Það virðist bara vera eitt svar við því. Það var það sem ég kom inn á í byrjun ræðu minnar. Það snýst ekkert um að gera sjávarútveginn hagkvæmari eða sanngjarnari. Það snýst um pólitíska leiki, að hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar geti beint athyglinni frá viðvarandi gríðarlegum vandræðum ríkisstjórnarinnar, ekki hvað síst í efnahagsmálum, frá vandræðaganginum með upphrópunum um sjávarútveginn, með því að finna nýjar grýlur, nýja óvini. Það er yfirleitt tilfellið í ríkjum þar sem stjórnvöld eiga í miklum erfiðleikum með efnahagsmál sérstaklega, þó sérstaklega í þeim ríkjum þar sem ekki er lýðræðisstjórn, þar er leitast við að finna óvini til að beina athyglinni frá vandanum innan lands, vandanum í efnahagsmálum. Það hafa menn gert hér í sjávarútvegsmálunum. Menn heyrðu svo sem strax í hvað stefndi þegar hæstv. forsætisráðherra tilkynnti allt í einu um síðustu áramót að hún ætlaði ekki að fylgja þeirri sáttaniðurstöðu sem búið var að leggja svo mikla vinnu í og byrjaði síðdegis á gamlársdag að uppnefna alla þá sem störfuðu í sjávarútvegi og boðaði til ófriðar. Þá vissu menn í hvað stefndi, það ætti að fara að setja af stað nýja leiksýningu með nýjum óvinum. Afleiðingin er sú að ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar, atvinnugrein sem við þurfum svo sannarlega á að halda til að koma okkur út úr þessu kreppuástandi, er sett í fullkomið uppnám. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir marga þá sem veita þessari ríkisstjórn brautargengi að þeir sem fara fyrir stjórninni skuli leyfa sér að koma fram með þeim hætti, skuli leyfa sér nú þegar atvinnulífið er allt í uppnámi að setja þá grein, sem kannski var líklegust til að hefja sóknina, í fullkomið uppnám, allt til að geta slegið ryki í augu gagnrýnenda ríkisstjórnarinnar og látið umræðuna snúast um eitthvað annað en viðvarandi vandamál stjórnarinnar. Það er tímabært að viðsnúningur verði hvað það varðar.

Það er sjálfsagt mál að sameinast um nýja stefnu í sjávarútvegsmálum. Það er sjálfsagt mál að sameinast um sókn á öllum sviðum atvinnulífsins, en þá verða menn að vera allir af vilja gerðir til að rétta hlut atvinnulífsins en ekki að vega stöðugt að því til (Forseti hringir.) að dreifa athyglinni frá eigin vanda.