139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við erum sammála um mikilvægi þess að ná sátt um þessa atvinnugrein og teljum það mögulegt, eins og mér heyrist að bæði ég og hv. þingmaður teljum, væri þá ekki ráð að setja þetta í annan farveg. Væri ekki ráð að byrja upp á nýtt eða að minnsta kosti á þeim stað þangað sem menn voru komnir í sáttanefndinni undir forustu núverandi hæstv. velferðarráðherra. Væri ekki skynsamlegra í stað þess að halda áfram að ræða þetta mál í algeru uppnámi út frá þessum tillögum — og þess má geta að einn stjórnarliða lýsti þeim tillögum á þann veg að það væri eins og þær hefðu verið skrifaðar af simpönsum — að huga að þeirri vinnu sem unnin var í sáttanefndinni. Ég held að það væri miklu æskilegri nálgun og líklegri til árangurs frekar en að halda áfram á þessari braut út frá frumvörpum sem enginn sem þekkir til hagrænna áhrifa hefur enn fengist til að bera lof á.