139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég er sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi landfræðilegrar tengingar til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun. Það sama á í raun við í landbúnaði. Menn voru á sínum tíma með hugmyndir uppi um að landbúnaður færðist allur á svæðið kringum Reykjavík. Korpúlfsstaðir voru afrakstur þeirrar hugmyndafræði en það hefði verið mjög óæskilegt. Þó að menn hafi getað reiknað það út á sínum tíma að það væri hagkvæmt að reka allan landbúnað í kringum Reykjavík held ég að það hefði ekki verið hagkvæmt og í raun verið mjög samfélagslega óæskilegt. Á sama hátt held ég að það sé æskilegt að sjávarútvegur sé stundaður víða um landið.

Hvað varðar spurningar hæstv. ráðherra, um hinn frjálsa markað og hætturnar sem honum fylgja, þá þurfum við að reyna að hanna kerfið á þann veg að það nýti sem best krafta frjálsa markaðarins til að ná hagræðingu. Og það verður að segjast eins og er að það hefur skilað alveg ótrúlega mikilli hagræðingu eins og ég lýsti í ræðu minni áðan. Þetta fyrirkomulag hefur sparað þjóðarbúinu óhemjumikla peninga og gert sjávarútveginn ekki aðeins sjálfbæran heldur í rauninni mjög arðbæran fyrir samfélagið allt. Við viljum halda því. En það er hins vegar rétt að við viljum setja þessu einhverjar skorður. Við mundum til dæmis ekki vilja að þetta væri það frjálst, svo að maður noti það jákvæða orð í neikvæðri merkingu, að risastórt spænskt sjávarútvegsfyrirtæki gæti keypt allan kvótann og starfað frá Spáni að veiðum við Íslandsstrendur þannig að arðurinn af auðlindinni skilaði sér ekki til þjóðarinnar.

Það leiðir okkur að meginspurningu ráðherrans, hvort við séum sammála um að miðin og fiskurinn í sjónum eigi að vera sameign þjóðarinnar og um það erum við sannarlega sammála.