139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa greiningu.

Samfylkingarmenn á þingi eins og annars staðar eru miklir stjórnmálaskýrendur. Þeir eru svona álitsgjafar okkar samfélags, iðulega kallaðir til þegar þarf að gefa mat á hvort heldur sem er stefnu Samfylkingarinnar eða annarra, í stjórnmálum almennt. Hæstv. utanríkisráðherra hefur eiginlega sérhæft sig í Framsóknarflokknum og stefnu hans og kemur oft hér með sínar skýringar inn í umræðuna.

Það var ánægjulegt að heyra hversu jákvæður hæstv. utanríkisráðherra var gagnvart sjávarútvegsstefnu Framsóknarflokksins. Ég er vitanlega sammála hæstv. utanríkisráðherra um það að á þeirri stefnu er hægt að byggja sátt. Ég held því að við ættum, eins og ég nefndi áðan í andsvari, að byrja annaðhvort frá grunni eða á þeim stað þar sem sáttanefnd hæstv. núverandi velferðarráðherra var stödd og þá taka inn í þá vinnu stefnu Framsóknarflokksins, tala út frá henni. Þannig er til staðar möguleiki á að ná þessari sögulegu sátt um sjávarútveginn, sáttinni sem við þurfum svo sannarlega á að halda.

Við hljótum þá að vera sammála um það líka, ég og hæstv. utanríkisráðherra, að frumvörp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra henta ekki sérstaklega vel sem grunnur til að byggja á, enda eru á þeim ýmsir gallar. Hæstv. ráðherra hefur nefnt nokkra þeirra og það hafa samflokksmenn hans aðrir gert líka. Væri þá ekki ráð að við byrjuðum þessa vinnu á sáttanótum? Ég er vitanlega til í að nota stefnu Framsóknarflokksins sem grunn í þeirri vinnu.