139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hefur gerst frá því að svokölluð sáttanefnd skilaði af sér er að Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram nýja stefnu af sinni hálfu, þetta er algjörlega splunkuný stefna sem er töluvert fráhvarf frá fyrri afstöðu Framsóknarflokksins og það er nýtt í málinu. Þá hugsa ég sem stjórnmálamaður en ekki greinandi, því að ég tek mér ekki það hlutverk, þó að ég skjóti því inn í, að ýmsir framsóknarmenn mættu nú taka sér utanríkisráðherra að eftirdæmi og gerast líka sérfræðingar í stefnu síns eigin flokks, en auðvitað les ég það sem frá öðrum flokkum kemur.

Ég lít svo á að þessi stefna Framsóknarflokksins skapi samkomulagsgrundvöll. Ég er til dæmis reiðubúinn til þess fyrir mína parta að reyna að finna sáttaflöt og búa til meiri hluta í þessu máli sem byggist á stefnu Framsóknarflokksins. Ég tel að hún sé ekki svo óskyld því sem við höfum verið að ræða í þessu frumvarpi. Umræðan hefur leitt fram óánægju hér í þinginu (Forseti hringir.) með frumvarpið og þá tel ég að við eigum að skoða þetta, ég held að þetta sé hægt.