139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[14:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um þetta frumvarp, samfylkingarfrumvarpið eins og það er kallað til aðgreiningar frá frumvarp Vinstri grænna um sama efni, þ.e. stjórn fiskveiða. Ég get sagt að ég er sammála öllum efnisþáttum sem fram komu í ræðu hv. þingmanns. Ég verð að segja að ég hef sjaldan séð jafnilla samið lagafrumvarp og það sem við erum að fjalla um hér. Hinar efnislegu hugmyndir sem þar koma fram tel ég galnar, algjörlega út í hött og að þær muni hafa mjög slæm áhrif á atvinnugreinina sem slíka, verði frumvarpið að lögum. Þeim sem standa að þessu frumvarpi lánast nú ekki einu sinni að koma hugsun sinni sómasamlega í orð vegna þess að frumvarpið er svo illa fram sett að það verður ógerningur fyrir þá sem eiga að starfa í greininni á grundvelli þessa frumvarps að átta sig á gildandi rétti í landinu varðandi stjórn fiskveiða, ég tala nú ekki um vegna þess að það eru svo ofboðslega miklar valdheimildir og svo mikið framsal valds frá þingi til ráðherra í þessu frumvarpi að maður hefur sjaldan séð annað eins.

Mér fannst sú nálgun hv. þm. Péturs Blöndals að ræða hér um samspil velferðar og sjávarútvegs mjög áhugaverð og, hvað eigum við að segja, nýr og ferskur vinkill inn í þessa umræðu. Ég skildi hann þannig að hann teldi að yrði frumvarpið að lögum hefði það mjög neikvæð áhrif á greinina. Það er nú einn gallinn á þessu frumvarpi, það hefur ekki farið fram hagfræðileg úttekt á efnahagslegum afleiðingum frumvarpsins en mig langar að spyrja hv. þm. (Forseti hringir.) Pétur H. Blöndal í stuttu máli (Forseti hringir.) hverjar hann telji að hagfræðilegar afleiðingar frumvarpsins verði, verði það að lögum