139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[14:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig og hefur verið lengi að sjávarútvegur er sú atvinnugrein sem er líklega reglusettust, ef svo má segja, af öllum atvinnugreinum á Íslandi (Gripið fram í: … í heiminum.) og jafnvel í heiminum, eins og hér er kallað fram í. Reglusetningin er mikil og hefur verið það lengi og við sem höfum í gegnum tíðina starfað töluvert með lögin um stjórn fiskveiða vitum líka að löggjöf á þessu sviði er geysilega tæknileg og sömuleiðis afleidd löggjöf í formi reglugerða og reglna og öllu því sem að lögunum um stjórn fiskveiða kemur.

Nú ber svo við að þingflokkur Hreyfingarinnar hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða sem er nokkuð mikið um sig, einar sjö greinar, og býsna tæknilegt, leyfi ég mér að segja. Ég ætla ekki að elta ólar við það sem hv. þingmaður sagði hér um Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn og forsögu þeirra stjórnmálaflokka varðandi stjórn fiskveiða en mig langar til að fá upplýsingar um það hjá hv. þingmanni hvort þingflokkur Hreyfingarinnar hafi leitað til einhverra sérfræðinga eða aðila í sjávarútvegi við samningu þessa frumvarps til ráðgjafar við gerð þess. Mér þætti vænt um að fá upplýsingar um það hverjir þeir sérfræðingar eru vegna þess að þess er ekki getið í greinargerð með frumvarpinu. Vill hv. þingmaður vera svo elskulegur að upplýsa mig um það hér?