139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[15:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og flutt er af hv. þingmönnum Hreyfingarinnar dregur fram ákveðin áhersluatriði sem ég er sammála. Ég vil nefna þau áhersluatriði sem ég er sammála. Ég er sammála þeim áherslum að það eigi að fela sveitarfélögum og landshlutum möguleika til að koma með beinum hætti að nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar fyrir ströndum landshlutanna eða sveitarfélaganna. Það er alveg ljóst, eins og framsögumaður og hv. þm. Þór Saari greindi réttilega frá að það hljóti að brenna á íbúum þessara byggða að fara vel með auðlindina og nýta hana á sjálfbæran hátt en einnig eigi frumburðarréttur þeirra til að nýta þessar auðlindir að vera virtur. Þau áhersluatriði sem greint er frá í þessu frumvarpi styð ég þó svo að ég styðji ekki þá endanlegu útfærslu sem þarna er lögð til, enda er það annað mál.

Hitt vil ég líka segja að ég er sammála þeim áherslum sem þarna eru dregnar upp eins og t.d. um vandann varðandi meðaflann. Það er vitað að á grunnslóð eru mjög blandaðar veiðar og þó að einhver hafi aflaheimild í einni tegund er ekki víst að hún sé nægileg fyrir ef skyndilegar breytingar verða og geta komið aðrar fisktegundir í veiðarfæri þó svo að það sé ekki meiningin að gera út á þær. Það sé þá bara eðlilegt, eins og einnig kemur fram í frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem ég mælti fyrir í umræðu um stjórn fiskveiða, að kerfið bregðist við slíkum breytingum sem hæglega geta orðið með stuttum fyrirvara, þ.e. breytingu á samsetningu afla. Það skemmtilega og góða við sjávarauðlindina er að hún er sívirk líffræðileg auðlind sem tekur breytingum, hún getur tekið skyndilegum og varanlegum breytingum, t.d. í kjölfar breytts hitastigs í sjónum, breyttra strauma og þess háttar. Að ætla sér að búa til eitthvert niðurnjörvað kvótakerfi eins og við höfum búið við á undanförnum árum sem ekki er sveigjanlegt í þessu tilliti gengur engan veginn upp. Sjórinn er líffræðileg auðlind og lýtur líffræðilegum dínamískum lögmálum sem við verðum að geta brugðist við mjög skyndilega og skjótt.

Í frumvarpinu er hvatt til strandveiða og ég tek undir það markmið, að standa vel að baki strandveiðinni enda var það eitt fyrsta verk mitt sem sjávarútvegsráðherra að koma á núverandi strandveiðum þó svo að þær hafi síðan fengið að vaxa enn meir. Hugur minn stendur til að auka enn frekar hlut strandveiðanna. Það má vel vera að það megi breyta og styrkja grunn þeirra og byggðatengja þær meira í vinnslu og þess háttar, það er þá bara eitthvað til að taka á. Ef til vill þarf að tengja það enn betur persónum en það má ekki verða útgerðarform þar sem sami aðili rekur marga strandveiðibáta. Ég tel að svo eigi ekki að vera enda sé ég það líka í frumvarpinu að þar er lögð áhersla á að þarna séu leyfi sem tengist fyrst og fremst einstaklingum eða einyrkjaútgerðum hvað það varðar.

Varðandi gjald vil ég minna á að nú greiða strandveiðibátarnir leyfin til viðkomandi hafna, að vísu ekki hátt gjald en engu að síður er það hvatning fyrir menn til að landa í minni höfnum, í minni byggðarlögum, og svo rekstraraðilar þeirra hafna, sveitarfélög eða aðrir ábyrgðaraðilar, fái eitthvert lágmarksgjald, kannski aukaþóknun, fyrir það sem þeir verða að inna af hendi til þess að fá þessa báta til að landa. Það hefur mælst mjög vel fyrir í heildarsamhenginu og eru strandveiðarnar hugsaðar til að styrkja sjávarbyggðirnar, jafnvel hinar minnstu líka.

Ég vildi nefna þessi atriði í frumvarpi hv. þingmanna Hreyfingarinnar og taka undir þær áherslur sem lagðar eru á fullvinnslu afla hérlendis. Unnið hefur verið markvisst að því á síðustu missirum og í tíð minni sem sjávarútvegsráðherra að gera það. Fyrir þremur árum var hér mikill útflutningur á óunnum gámafiski, sem kallaður var. Hann fór síðan á fiskmarkaði erlendis og var unninn þar. Ég man ekki hvort það voru um 50 þúsund tonn af botnfiski sem fóru úr landi á tímabili. Það hefur stórlega minnkað, bæði með því að auka skyldur á vigtun hér á landi og með því reynt að skapa forgang fyrir íslenska fiskvinnslu, og einnig með því að leggja gámaálag á þá sem fara með fiskinn óvigtaðan í gámum á erlenda markaði. Við erum með enn frekari aðgerðir í vinnslu í ráðuneytinu til þess að hvetja til og treysta stöðu innlendrar fiskvinnslu og möguleika hennar til að ná í þennan fisk. Mér skilst á síðustu tölum að útflutningur á óunnum fiski sé núna innan við 1/3 af því sem hann var fyrir þremur árum þannig að það hefur áunnist heilmikið í þessum efnum. Þær áherslur sem hv. þingmenn Hreyfingarinnar leggja varðandi fiskvinnslu í landi á Íslandi, að sá fiskur sem veiddur sé á Íslandsmiðum skuli vinnast hér á landi eins og hægt er, er sjónarmið sem ég tek alveg heils hugar undir.

Önnur atriði varðandi frumvarpið, eins og útfærsla þess í ýmsum öðrum atriðum, eru meira umhugsunarefni og ég lýsi ekki stuðningi við það. Ég vil þó segja að mér finnst það mjög gott hjá þingflokknum að leggja fram frumvarp til laga um stjórn fiskveiða með ákveðnum grunnstefnumiðum eins og við höfum fyrir framan okkur og mælt hefur verið fyrir. Það er gott framtak þó að í ýmsum útfærslum og öðrum áherslum sem ég kem ekki inn á hér séu af öðrum toga sem ég styð ekki. En þau atriði sem ég hef nefnt hérna, frú forseti, vildi ég gera að aðalefni ræðu minnar.