139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það sem mér finnst mikilvægast við það frumvarp sem hér er til umræðu og er lagt fram af hv. þingmönnum Hreyfingarinnar er að það felur í sér valkost. Stjórnmál eiga að snúast um það að geta tekið afstöðu til mismunandi kosta. Ástæðan fyrir því að menn eru í mismunandi flokkum er sú að þeir hafa gjarnan mismunandi grundvallarviðhorf til samfélagsins. Ég tel þess vegna að þegar mönnum tekst í erfiðum málum eins og stjórn fiskveiða sannarlega er að koma fram með heildstætt hugmyndakerfi sé það í sjálfu sér afrek og hv. þingmenn Hreyfingarinnar eiga lof skilið fyrir það.

Ég tel að sá valkostur sem hér liggur fyrir verðskuldi það fyllilega að vera tekinn til mjög ítarlegrar umræðu í fagnefnd þingsins. Mér finnst líka, ekki síst í ljósi gagnrýni sem hér hefur komið fram, m.a. frá einum af fremstu hagsnillingum þingsins, hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni (TÞH: Og þjóðarinnar.) — og þjóðarinnar, kallar hann sjálfur fram í — að þetta frumvarp eigi það skilið að líka verði farið í það með svipuðum hætti og frumvörp ríkisstjórnarinnar sem núna liggja fyrir, þ.e. að sérfræðingar skoði þau og kanni hvernig þau standast gagnrýni.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á að það kynni að vera að 5. gr., sem er um kvótaskuldasjóð, kynni að fela í sér nokkuð þungt högg fyrir bankakerfið í landinu. Það þarf að grafast fyrir um sanngildi þeirrar fullyrðingar, ég kaupi það ekki alveg svona að óskoðuðu máli.

Það eru þrjú meginatriði sem þetta frumvarp byggist á og ég verð að segja það að ég hef efasemdir um að það sé rétt að útdeila aflaheimildum þjóðarinnar á þau sveitarfélög, eins og ég skil það, sem hafa þó í dag töluverða hagsmuni af því að nýta sjó. Ég er ekki algjörlega sannfærður um að það sé hin rökrétta og sanngjarnasta leið. Ég er alveg reiðubúinn til að skoða rök í því efni.

Það sem mér finnst jákvæðast við þetta frumvarp er tvennt. Í fyrsta lagi að það tekur með mjög eindregnum hætti undir að það beri að efla umhverfisvænar veiðiaðferðir. Ég hef í gegnum tímann verið, eins og menn vita, ákaflega hlynntur krókaveiðum og það er alveg ljóst að áhersla Hreyfingarinnar er mjög á það. Sömuleiðis tel ég að það sem kemur fram í 2. gr. b í þessu frumvarpi, þ.e. mjög sterk áhersla á að nýta markaðinn til að miðla aflaheimildum, sé mjög athyglisverð aðferð og ég tel að hún sé í takt við viðhorf sem hafa komið fram hjá mörgum í mínum stjórnmálaflokki. Ég hegg sömuleiðis eftir því að ýmsir sérfræðingar sem hafa verið að kveðja sér hljóðs um stjórn fiskveiða hafa lyft þessum möguleika og þess vegna tel ég að það eigi að skoða þetta mjög vel.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, frú forseti, en ég vil þakka Hreyfingunni fyrir að hafa lagt hérna fram frumvarp sem felur í sér hugmyndakerfi sem er valkostur bæði við það sem t.d. hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið að boða í þessari umræðu, sem er meira og minna óbreytt kerfi, og hins vegar það byltingarkennda kerfi sem er að finna í frumvörpum ríkisstjórnarinnar.