139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

námsstyrkir.

734. mál
[15:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Skúla Helgasonar stendur menntamálanefnd einhuga að baki þessu nefndaráliti. Ég vil árétta það sem hv. þingmaður kom inn á, þessir styrkir eru af tvennum toga, annars vegar dvalarstyrkir og hins vegar styrkir til skólaaksturs. Það sem er verið að bæta inn hér skiptir máli og menn þyrftu að íhuga enn frekar þegar horft er til hröðunar og samfellu frá grunnskóla að stúdentsprófi að þeim nemendum gæti fjölgað sem taka það nám á skemmri tíma en gert er ráð fyrir í dag. Til að þeir sem hefja nám á háskólastigi sitji allir við sama borð þyrfti að horfa til þess að breyta með einhverjum hætti Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna einstaklinga sem sumir hverjir eru hvorki fjárráða né lögráða. Menn verða að íhuga það þannig að ekki sæki sumir sér lán í Lánasjóð íslenskra námsmanna en aðrir fái námsstyrki.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd fögnum einnig þeirri breytingu sem varð í meðförum nefndarinnar þegar ákveðið var að fækka nefndarmönnum um tvo, úr fimm í þrjá, að sett væri inn það skilyrði að fulltrúi unga fólksins ætti aðkomu að þessari nefnd. Okkur í menntamálanefnd hefur í mörgum öðrum málum orðið tíðrætt um afstöðu ungs fólks til þess sem snertir það sjálft. Þar sem við leggjum áherslu á að unga fólkið eigi fulltrúa fögnum við þessu sérstaklega. Þó að ekki sé kveðið fastar að orði en að nefndin leggi á það áherslu að annar fulltrúi sem skipaður verður af mennta- og menningarmálaráðherra sé fulltrúi nemenda treystum við því að hæstv. menntamálaráðherra, hver svo sem hann er á hverjum tíma, virði þessa ósk nefndarinnar og að aðkoma ungmenna að þeim málum sem fjalla um þau sjálf sé tryggð. Þá fylgja orðum okkar athafnir og það er það sem við höfum oftar en ekki látið falla um orð hér á þingi að skipti máli, virðulegur forseti.