139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og ég mæli fyrir nefndaráliti menntamálanefndar.

Með þessu frumvarpi er lögð fram heildarendurskoðun á gildandi löggjöf um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn í samræmi við breytt hlutverk bókasafna á 21. öldinni, nauðsyn þess að endurskilgreina hlutverk safnsins, öra þróun á sviði upplýsingatækni og þær breytingar sem hafa orðið á háskólasamfélaginu á síðustu árum. Eins og menn þekkja hefur háskólum í landinu fjölgað umtalsvert á undanförnum árum eða frá því að Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn var sett á fót í hinni nýju glæsilegu Þjóðarbókhlöðu árið 1994. Háskólar í landinu eru nú sjö talsins og ljóst að með þessum breytingum á háskólasamfélaginu hefur hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns breyst að nokkru leyti og safnið er í reynd orðið þjóðbókasafn allra landsmanna sem þjónustar ekki einungis Háskóla Íslands heldur alla háskóla í landinu

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um meginverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Frá umsagnaraðilum komu fram ábendingar er lúta að c-lið greinarinnar, annars vegar að orðalag málsliðarins væri of almennt og hins vegar að nauðsynlegt væri að safnið hefði sér til ráðgjafar nefnd sem skipuð væri fulltrúum helstu greiðenda til að taka þátt í stefnumótun, vali á efni, gerð fjárhagsáætlana o.s.frv. Nefndin tekur undir þessar ábendingar og leggur til breytingar á frumvarpinu þar að lútandi. Einnig komu fram ábendingar um að brýnt væri að leggja áherslu á það þróunarstarf sem unnið er í safninu til hagsbóta fyrir íslensk bókasöfn og gerir nefndin þessa tillögu að sinni og leggur til breytingar í þá veru.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns en með því er verið að færa ákvæði um hlutverk stjórnar safnsins til samræmis við almenna þróun á hlutverki stjórna í opinberum stofnunum hér á landi undanfarinn áratug, sérstaklega þó til að hnykkja á því að forstöðumaður beri fulla ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar, samanber 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hlutverk stjórnar bókasafnsins verður þá, svo dæmi sé tekið, í samræmi við hlutverk stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og vill nefndin jafnframt árétta að einn megintilgangurinn með setningu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi einmitt verið að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald, jafnframt því að gera auknar kröfur til þeirra og auka ábyrgð þeirra. Nefndin áréttar hins vegar að stjórnin er mikilvægur samráðsvettvangur sem og tengiliður við Háskóla Íslands og háskóla- og vísindasamfélagið í landinu almennt og landsbókaverði til ráðgjafar. Nefndin leggur til breytingu á 9. gr. frumvarpsins þess efnis að reglur um grisjun á safnkosti verði settar í samráði við stjórn safnsins en ekki að fengnu samþykki stjórnar.

Nokkuð er fjallað er um skipun og hlutverk landsbókavarðar í 3. gr. frumvarpsins. Lögð er til sú breyting að krafa verði gerð um að landsbókavörður hafi háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins. Nefndin leggur ekki til breytingu á þessu ákvæði en telur að eðlilegt sé að ákvæði um landsbókavörð séu sambærileg ákvæðum um forstöðumenn annarra menningarstofnana, svo sem Náttúruminjasafns Íslands, þjóðminjavörð, forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins o.s.frv.

Síðan vil ég árétta það að nefndin leggur til sams konar breytingu á þessu frumvarpi og hún lagði til um almenningsbókasöfn er lýtur að grundvelli fyrir þjónustugjöld og svokölluð þvingunarúrræði þar sem átt er við sektir og bótagreiðslur vegna þess að safnefni hefur glatast eða skemmst í meðförum notenda.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits varðandi þær breytingartillögur sem nefndin leggur til í áliti sínu. Undir álitið rita allir fulltrúar í hv. menntamálanefnd.