139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa ábendingu, sem er mjög þörf. Ég held að góðu heilli sé að skapast almennur stuðningur við þá stefnumótun að í skólakerfi okkar reynum við eftir megni að þjónusta hvern nemanda og virkja þá hæfileika og getu sem býr í hverjum og einum. Við höfum kannski ekki verið nægilega dugleg við að sinna þeim áherslum á liðnum áratugum, meðal annars með þeim afleiðingum að brottfall hefur verið mjög mikið í framhaldsskólunum og reyndar á öllum skólastigum. Það er efalítið afleiðing af því að til dæmis þeir hópar sem hv. þingmaður vísaði til, sem eru kannski ekki eins vel í færum að læra á bókina en hafa mikla hæfileika til að leggja stund á styttri starfsnámsbrautir, hafa ekki fengið þá þjónustu sem þeim hefur hentað. Þó erum við með ákvæði í stjórnarskránni sem segir okkur að allir borgarar í þessu landi eigi að fá menntun og fræðslu við sitt hæfi.

Þetta er eitt af því sem er mikilvægt og var vissulega rætt í nefndinni, þ.e. að við þyrftum að auka vægi starfsnáms í menntakerfinu og fjölga starfsnámsbrautum, ekki síst styttri starfsnámsbrautum. Það kom einmitt fram í umfjöllun nefndarinnar að sá ljóður hefur verið á okkar menntakerfi að einhverju leyti að starfsnámsbrautir hafa í of miklum mæli verið mótaðar í samræmi við fyrirkomulagið í bóknáminu. Við erum með fjögurra ára nám í starfsnámi þegar kannski tveggja ára nám mundi duga. Áherslan á styttri starfsnámsbrautir er örugglega eitt af því sem við þurfum að horfa meira til í þessari vinnu. Það er einmitt ein af þeim breytingum sem nefndin leggur til að þróaðar verði nýjar fjölbreyttar starfsnámsleiðir með það markmið í huga.