139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum við frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Hér er um fjórar breytingartillögur að ræða sem ég ætla að fara yfir. Í þeirri fyrstu segir, með leyfi forseta:

„Á eftir a-lið 2. gr. komi nýr stafliður svohljóðandi: Í stað orðanna „3. og 5. mgr. 15. gr.“ í 3. málslið 1. mgr. kemur: 3., 5. og 6. mgr. 15. gr.“

Hér er um tæknilega breytingu að ræða. Í frumvarpinu var lögð til breyting á 15. gr. laganna þar sem vísað er til að barnaverndarnefndir geti kært til kærunefndar barnaverndarmála ákvarðanir Barnaverndarstofu samkvæmt 3., 5. og 6. mgr. 15. gr. Sambærilega breytingu láðist að leggja til á 6. gr. laganna og því er þessi breyting lögð til.

Í tillögu númer tvö segir:

„Við b-lið 53. gr.

a. Orðin „og hagsmunasamtök fóstur- og vistforeldra“ í 1. málslið falli brott.

b. Á eftir orðunum „með sama hætti“ í 2. málslið komi: og að höfðu samráði við hagsmunasamtök fóstur- og vistforeldra.“

Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að nefndin lagði til að haft yrði samráð við hagsmunasamtök fóstur- og vistforeldra við gerð reglugerðar um fjárhæðir sem greiddar eru vegna barna í fóstri og um hlut ríkisins í kostnaði vegna fósturs. Samkvæmt breytingartillögu nefndarinnar var jafnframt gert ráð fyrir samráði við hagsmunasamtökin um fjárhæð gjalda sem sveitarfélögum ber að greiða vegna ráðstöfunar barna í neyðarvistun á heimili eða stofnun. Eðli málsins samkvæmt var ekki ætlunin að leggja á samráðsskyldu vegna þess kostnaðar og er því lögð til leiðrétting á þessu.

Í þriðju breytingartillögunni segir:

„Við b-lið 54. gr. Í stað orðanna „að höfðu samráði við“ í 4. mgr. komi: að fengnum tillögum.“

Annars staðar í lögunum er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð að fengnum tillögum Barnaverndarstofu og rétt er að hafa sama hátt á hér því um er að ræða samræmingu á orðalagi.

Í fjórðu breytingartillögunni segir:

„9. mgr. 57. gr. orðist svo:

Ákvæði a-liðar 45. gr., 50.–52. gr., a-liðar 53. gr. og 1., 3. og 4. málsliður b-liðar 53. gr. taka gildi 1. janúar 2013.“

Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar kemur fram að nefndin leggi til að ákvæði er varða breytta verkskiptingu ríkis og sveitarfélaga taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2013. Lagði nefndin því til breytingu þess efnis að ákvæði sem getið er í 9. mgr. gildistökuákvæðis frumvarpsins tækju gildi 2013. Þar er þó jafnframt að finna ákvæði er varðar kostnað vegna fósturs auk ákvæða um mat og eftirlit með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis. Nefndin hefur lagt áherslu á sterkt, skilvirkt og virkt eftirlit og því er mikilvægt að breyta gildistökunni þannig að ákvæði er varða eftirlit taki gildi strax.

Flutningsmaður þessara breytingartillagna er Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og legg ég til að hv. Alþingi samþykki þessar tillögur.