139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir gagnkvæmar skerðingar örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og örorkulífeyris almannatrygginga. Byggist það á samkomulagi félags- og tryggingamálaráðherra, nú velferðarráðherra, og Landssamtaka lífeyrissjóða frá 30. desember 2010 sem gert var á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum frá 3. desember 2010.

Í ákvæðum frumvarpsins er kveðið á um að örorkulífeyrir almannatrygginga, auk greiðslna örorkustyrks, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar, lækki ekki vegna almennra hækkana á örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum. Hið sama eigi við um greiðslur heimilisuppbótar, uppbótar á lífeyri vegna kostnaðar og uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Þá er kveðið á um það í 3. gr. frumvarpsins að óheimilt sé að láta almennar hækkanir sem kunni að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

Nefndin ræddi nokkuð skerðingar sem örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Nefndin bendir á að örorkulífeyrisþegar hafa vegna víxlverkana örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum orðið fyrir umtalsverðum skerðingum á greiðslum frá sínum lífeyrissjóði síðustu ár og margir misst þær alveg. Mikilvægt er að stöðva frekari skerðingar og kanna til hlítar hvort og þá með hvaða hætti sé hægt að leiðrétta skerðingar aftur í tímann. Sökum þess hvernig þetta frumvarp er til komið og með vísan í samkomulagið sem það byggist á telur nefndin að svo stöddu ekki unnt að kveða á um frekari afturvirkni frumvarpsins. Það liggur á að tryggja þá réttarbót sem í frumvarpinu felst en nefndin áréttar hins vegar mikilvægi þess að skoða þessi mál til hlítar og frekari leiðréttingu á þeim skerðingum sem öryrkjar hafa orðið fyrir.

Við nefndina voru bornar upp áhyggjur af því að óljóst væri hvað átt væri við með almennum hækkunum. Til að mynda yrði unnt að skilgreina það þröngt og koma í veg fyrir að þar undir féllu hækkanir í samræmi við nýsamþykkta breytingu þingsins á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í þeim lögum er ráðherra gefin heimild til að hækka bætur almannatrygginga með reglugerð ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Markmið laganna er að lífeyrisþegar njóti hliðstæðra kjarabóta og um hefur verið samið í kjarasamningum aðila á vinnumarkaði.

Nefndin áréttar að hækkanir sem verða í samræmi við framangreinda breytingu á almannatryggingalögum og reglugerð ráðherra fellur undir það að vera almenn hækkun og leiði því ekki til lækkunar örorkulífeyris lífeyrissjóða.

Nefndin fagnar því að sú hækkun sem verður á örorkulífeyri í samræmi við nýsamþykkt lög, reglugerð ráðherra og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga leiði ekki til víxlverkunar og samsvarandi lækkunar örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Um er að ræða mikilvægar kjarabætur til handa lífeyrisþegum og brýnt að þeir fái notið þeirra án þess að samspil greiðslna frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum leiði til lækkunar.

Nefndinni voru kynntar áhyggjur af því að ekki væri hér um varanlega ráðstöfun að ræða þar sem frumvarpið hefur tímabundinn gildistíma og ákvæðum þess er einungis ætlað að gilda til ársloka 2013. Því fylgdi óvissa fyrir örorkulífeyrisþega um framtíðargreiðslu til þeirra. Í athugasemdum við frumvarpið og í máli gesta kom fram að nýta eigi tímann fram að því til að ljúka endurskoðun á sambandi og samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga. Nefndin áréttar mikilvægi þess að fundin sé varanleg lausn á víxlverkun þessara tveggja meginstoða lífeyristrygginga landsmanna og að tíminn til endurskoðunar sé nýttur til hins ýtrasta eins og vilji stendur til. Nefndin áréttar jafnframt hversu nauðsynlegt það er við yfirstandandi endurskoðun almannatryggingalaga að lausn finnist á samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga til frambúðar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur Guðmundur Steingrímsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Íris Róbertsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Ásbjörn Óttarsson, með fyrirvara.