139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú hefur langa forsögu. Segja má að það hafi byrjað upp úr 1980 þegar lífeyrissjóðirnir hófu að verðtryggja lífeyri sinn en þangað til hafði hann verið afskaplega óverulegur og skipti ekki máli í rauninni, var bara einhverjar óverðtryggðar krónur sem dugðu ekki til neins og skiptu engu máli.

Þegar lífeyrissjóðir fóru að verðtryggja lífeyri og sérstaklega þegar þeir fóru að framreikna lífeyri örorkulífeyrisþega, þ.e. að menn sem yrðu öryrkjar fengju lífeyri eins og þeir hefðu greitt til æviloka, þá fóru lífeyrissjóðirnir í reynd að borga lífeyri eins og þeir yrðu þegar lífeyrissjóðirnir væru búnir að starfa á fullu eftir svona 30, 40 ár með ellilífeyri. Það þýddi að öryrkjar voru þeir fyrstu hjá lífeyrissjóðunum sem fengu sæmilegan lífeyri með framreikningi.

Inn í reglugerðir sjóðanna var á þeim tíma sett sjálfsagt ákvæði um að maður sem verður öryrki á ekki að vera betur settur eftir örorkuna en áður, þ.e. hann átti ekki hækka í launum við það að fá örorkulífeyri. Þetta finnst mér vera alveg sjálfsagt ákvæði og er enn í reglugerðum sjóðanna. Þeir fóru að framkvæma þetta fyrir nokkrum árum og þá fóru að gerast undarlegir hlutir vegna þess samspils sem er við Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. lífeyris frá almannatryggingum, sem enn er ekki leyst. Það hefur ekki verið leyst hvernig lífeyrissjóðirnir sem borga tekjutengdan lífeyri og hins vegar almannatryggingar sem borga eiginlega framfærslutryggingu eiga að vinna saman. Ég vil minna á að skylda er að borga í lífeyrissjóð þannig að þeir eru hluti af velferðarkerfinu og það ættu í rauninni allir sem verða öryrkjar að vera með framreikning í einhverjum skilningi. Þeir eiga að hafa unnið á vinnumarkaði, nema þeir sem eru fatlaðir frá fæðingu og fara aldrei á vinnumarkað. Það er svo aftur hópur sem hefur sem betur fer verið dálítið í umræðunni og í löggjöfinni undanfarin tíu til fimmtán ár og hefur verið gert stórátak í því að bæta stöðu fatlaðs fólks en þar má gera töluvert betur frá því sem er í dag en ég ætla að sleppa þeim hópi nú.

Það sem olli miklum vandræðum, þegar lífeyrissjóðirnir fóru að virkja þetta ákvæði um að menn ættu ekki að hagnast af örorkunni, var það fólk sem hafði greitt inn í lífeyrissjóðina af mjög litlum tekjum, jafnvel fyrir hlutastarf, jafnvel fyrir örlítið starf. Heimavinnandi húsmæður eða námsmenn fóru að vinna og borga í lífeyrissjóð af mjög litlum tekjum, kannski fyrir vinnu í 3–4 mánuði á ári eða eitthvað slíkt. Þegar þær tekjur komu svo til greiðslu örorkulífeyris nokkrum árum seinna voru viðmiðunartekjurnar sem greitt hafði verið inn í lífeyrissjóðina mjög lágar og stundum undir því lágmarki sem almannatryggingar greiða. Ég tel að það hafi verið mistök hjá lífeyrissjóðunum að hafa ekki miðað við alla vega lágmarkslaun þegar þeir fóru að skerða sinn lífeyri þannig að tekjutrygging almannatrygginga yrði ekki ákveðinn botn í því máli.

Þetta kom mjög undarlega út og allt þetta kerfi er eiginlega óskiljanlegt nema fyrir innvígða. Ég geri ekki ráð fyrir að margir þingmenn skilji þetta, geri ekki kröfu til þess og ég geri heldur ekki ráð fyrir og enn síður að almenningur skilji hvernig samspil almennra lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar er.

Þannig er, herra forseti, að ef lífeyrissjóður hækkar lífeyri af einhverjum ástæðum, segjum að gengið hafi vel í góðærinu eins og það gerði, sumir lífeyrissjóðir hækkuðu þá lífeyri en eru reyndar búnir að skerða hann aftur, þá var það tilkynnt til Tryggingastofnunar og hún sagði: Þessi maður er með hærri lífeyri, við skerðum lífeyrinn frá okkur. Um leið og það var gert kom inn í dæmið skertur lífeyrir frá Tryggingastofnun og maðurinn var aftur kominn með lægri laun og fór aftur undir mörk lífeyrissjóðsins þannig að hann hækkaði sínar bætur. Svona gekk þetta fram og til baka að lífeyrissjóðurinn hækkaði bæturnar, Tryggingastofnun skerti og þetta gekk svona fram og til baka með ákveðinni töf upp á einhverja mánuði eða ár og fólk skildi náttúrlega ekki neitt í neinu að þetta dinglaði svona upp og niður.

Þetta er nokkuð sem er eiginlega löggjafanum að kenna eða þeim sem sjá um þróun velferðarkerfisins, að reglurnar skuli ekki vera skýrar og að þetta skuli ekki vera gert bara á punktinum. Þegar fyrir liggur að maður verður öryrki hjá lífeyrissjóði og hækkun kemur þar ætti um leið að vera búið að reikna hver endanleg niðurstaða er en láta það ekki fara svona fram og til baka eins og bolta eða eitthvað slíkt sem fólk skilur ekki.

Hér er frumvarp um að þetta verði fryst í þrjú ár, þessi ákvæði sem um er að ræða, og á meðan verði unnið að því að finna lausn á þessu. Til þess að það verði þurfa menn náttúrlega að vinna hratt. Ég er í þeirri nefnd sem fjallar um þetta mál og þar hafa menn verið að skoða Tryggingastofnun mest. Ég hef varað einmitt við því í nefndinni að menn skoði bara Tryggingastofnun vegna þess að menn þurfa að taka allt umhverfi hennar, þ.e. lífeyrissjóðina, alveg sérstaklega inn. Lífeyrissjóðirnir borga miklu meiri lífeyri í dag en Tryggingastofnun og munu sækja enn meira á í framtíðinni. Mig minnir að það séu 70 milljarðar á móti 50, 70 milljarðar sem lífeyrissjóðirnir greiða í lífeyri á móti 50 sem Tryggingastofnun greiðir og af þeim tölum sjá menn að þetta eru umtalsverðar upphæðir sem við erum að tala um.

Ég vonast til að nefndin verði búin að skila niðurstöðu áður en þessi frestur rennur út en það gengur heldur ekki eins og sumir hafa sagt og segja: Við skerðum ekkert lífeyri frá Tryggingastofnun vegna þess að hann er réttur okkar sem við eigum samkvæmt skattkerfinu. Hvað mundi koma út úr því, herra forseti? Það mundi koma út úr því oftrygging, vegna þess að ef menn væru með tekjutryggðan lífeyri, stefnt er að 56%, að menn fái 56% af tekjum, sem er lífeyrir, og síðan fái þeir einhvern krónutölulífeyri sem ætlaður er til framfærslu hjá Tryggingastofnun óskert, 150–160 þús. kr. eða 180 þús. kr. eins og nú er markið, fyrir skatt reyndar. Þá mundi fólk, sérstaklega lágtekjufólk sem fær 56% af einhverjum lágum tekjum, einhverjum lágmarkslaunum, fá töluvert hærri lífeyri eftir að það verður öryrkjar en áður. Líka það að ekki er gerð krafa til þess að öryrkjar megi ekki vinna, þeir megi því vinna og þá getur það gerst að öryrki vinni við hliðina á manni sem ekki er öryrki og öryrkinn er með töluvert hærri og betri lífskjör en sá sem hann vinnur við hliðina á. Þá hafa menn sagt að það komi til alls konar tæki og annað slíkt sem öryrkinn þarf að kosta til, en það er ekki alltaf. Sumir eru öryrkjar án þess að þurfa tæki og annað slíkt, hjólastól og annan kostnað sem reyndar er líka greiddur af kerfinu, og þá getur það gerst að við séum að búa til þá stöðu að sá sem nýtur bóta er með betri lífskjör en sá sem vinnur við hliðina á honum. Það er eitt af grundvallaratriðum í öllum velferðarkerfum að sá sem greiðir bæturnar sé ekki með verri lífskjör en sá sem þiggur bæturnar, þ.e. að ekki séu tekin lífskjör af einhverjum manni og flutt yfir á einhvern annan þannig að sá fyrri tapi. Talið er að það megi ekki gera almennt séð.

Þetta er mjög flókið frumvarp, flókin mál hafa langa sögu. Ég vona að sú nefnd sem er að störfum finni á þessu tiltölulega einfalda lausn þannig að sem flestir geti skilið.