139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er aðallega til að ýta á spurninguna um fjáraukalögin ef þetta verður samþykkt, hvort ekki sé ástæða til að horfast í augu við það. Það hefur verið allt of lítill agi í fjármálum hér á landi. Það eru stórar fjárhæðir, gífurlega stórar fjárhæðir, herra forseti, sem ekki hafa verið færðar til bókar eins og t.d. skuldbinding vegna B-deildar LSR, 400 milljarðar. Ég hef hvergi séð hvernig eigi að greiða það. Spurningin er sú hvort hv. þingmaður verði þá ekki með mér í því að flytja fjáraukalög um þessi útgjöld þegar þau verða, enda segir stjórnarskráin að ekki megi greiða krónu út úr ríkissjóði nema samkvæmt fjáraukalögum eða fjárlögum. Það segir stjórnarskráin sem við höfum svarið eið að. Ég held að það sé nú rétt, herra forseti, að við förum að framkvæma eða vinna samkvæmt stjórnarskránni áður en við förum að huga að því að búa til nýja sem ég líka styð. En það má ekki greiða út hækkanir samkvæmt þessu samkomulagi fyrr en búið er að setja þær í fjáraukalög. Það er bara þannig.

Hugleiðingar hv. þingmanns um tap á hlutabréfum og ranga ráðgjöf og allt slíkt, þetta hefur maður heyrt og þetta á alveg rétt á sér og þyrfti að ræða miklu ítarlegar í kannski öðru samhengi. Ég veit ekki hversu burðugir bankarnir eru til að bera ábyrgð á því, hvort föllnu bankarnir geti borið ábyrgð á því sem menn töpuðu í þeim efnum. Það er kannski erfitt að sanna það hvernig menn voru vélaðir til að leggja peninga bæði í peningamarkaðssjóði og líka hlutabréf í viðkomandi banka sem tapaðist þá alveg, algerlega, gjörsamlega. Það voru eitthvað um 60 þúsund venjuleg heimili sem töpuðu 80 milljörðum og helmingur aldraðra tapaði töluverðum peningum líka.