139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að svara þessu með fjáraukalögin sem hv. þingmaður beindi til mín í fyrra andsvari og ég skal svara því núna.

Ég held að þetta væri til mikilla bóta. Ég held að það sem mundi gerast sé að þingið yrði miklu meðvitaðra um hverju hafi verið eytt og hverju lofað. Hv. þingmaður bendir að það þyrfti í raun og veru að flytja fjáraukalög og ég er sammála hv. þingmanni um það. Yfirsýnin yfir þetta er takmörkuð, alla vega hjá mörgum hv. þingmönnum, tel ég vera.

Ég vil líka minna á þá umræðu sem fór fram hér fyrir nokkru síðan um lokafjárlögin. Þá vorum við að samþykkja lokafjárlög fyrir árið 2009. Þar var verið að færa til tugi milljarða í báðar áttir og var nánast engin umræða um það, tveir, þrír sem tóku þátt í henni. Þá var verið að rétta af allt sem var að gerast. Auðvitað vantar allan aga inn í fjárreiður ríkisins. Það er til að mynda eitt sem maður gæti líka rætt, við samþykktum fjárlög fyrir árið 2011, þeir sem samþykktu þau, þó svo að búið væri að segja að til að mynda Sjúkratryggingar gætu ekki staðið við það sem þar er sagt nema lögum yrði breytt. Nú hefur þessum lögum ekki verið breytt og alveg viðurkennt og vitað að Sjúkratryggingar verða með 2 milljarða í halla. Samt hafði þinginu verið sagt frá því á fundi í fjárlaganefnd að Sjúkratryggingar mundu ekki geta staðið við þetta nema lögum yrði breytt og þeim yrði gert að skerða þjónustuna. Það hefur ekkert verið gert í því. Hvaða gagn er í svoleiðis fjárlögum ef þeim er ekki fylgt ekki alla leið? Það er akkúrat það sem hv. þingmaður var að benda á. Auðvitað eiga að vera hér fjáraukalög þannig að menn geti séð nákvæmlega hvað er að gerast en ekki bara þeir hv. þingmenn sem eiga sæti í fjárlaganefnd.

Eitt sem ég ætla að enda á í sambandi við þetta agaleysi í ríkisfjármálunum. Það eru til að mynda allar þær stofnanir sem eru með sértekjur, þær eyða þeim bara, margar hverjar, og hafa frjálsan aðgang að þeim og taka ekki á sig niðurskurð. Ein stofnun núna — það kemur fram á minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu — sem er með sértekjur segist bara ætla að fá að nota þær, og þó að fjárlög ríkisins segi annað ætlar hún samt að nota þær.