139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[17:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. framsögumann, sem flutti ágæta ræðu um málið, út í tvennt; í fyrsta lagi út í hlutaatvinnuleysisbæturnar sem teknar voru upp eftir hrun. Ég tel að þar sé um að ræða ákveðin nýmæli í heiminum þótt ég hafi ekki kannað það. Fyrst var miðað við að fólk gæti jafnvel orðið 10% atvinnulaust og haft í huga t.d. 10 manna fyrirtæki sem þyrfti að segja upp einum manni. En í stað þess að segja einum manni upp alveg, sem yrði þá tap á þekkingu í fyrirtækinu og rofið samband við vinnumarkaðinn og viðkomandi aðili yrði algerlega atvinnulaus, yrði öllum sagt upp 10%. Nú er búið að víkka það út þannig að lágmarkið er 30% þannig að þetta nýmæli er að fjara út. Spurning mín til hv. þingmanns er hvort hann telji það æskilega þróun að ákvæðið sé látið fjara út, það á að renna út um áramótin. Er meiningin sem sagt að fella hlutaatvinnuleysisbætur alveg út?

Þá kem ég inn á það sem gerist þegar fyrirtæki verður gjaldþrota, t.d. vegna of hárra launa í góðærinu, og nauðsynlegt er að skerða launin sem eru samkvæmt kjarasamningi með álagi og slíku — samkvæmt kjarasamningi má ekki skerða launin. Einhver vill kaupa reksturinn en forsenda þess að hann beri sig er að launin verði lækkuð, sem má ekki samkvæmt kjarasamningi. Getur þá komið upp sú pattstaða að þeir aðilar sem vilja bjarga fyrirtæki í rekstri megi það ekki samkvæmt lögum og afleiðingin verði atvinnuleysi allra starfsmannanna?