139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um þau tvö atriði sem ég hef nefnt í andsvörum og þá fyrst um hlutaatvinnuleysisbæturnar. Sú hugmynd kom fram að ég held í ræðu hjá mér rétt eftir hrun að opinberir starfsmenn mundu nýta þetta þegar menn sáu fyrir sér mikinn vanda hjá ríkinu, mikinn kostnað og mikinn niðurskurð. Því miður hafa menn ekki notað þá leið nægilega mikið. Menn hafa sagt fólki upp að fullu t.d. á hjúkrunarstöðum úti á landi, þar voru ekki teknar upp hlutauppsagnir eða eitthvað slíkt. Það finnst mér mjög miður af því að heimildin er til staðar í lögunum um að menn geti verið 25% atvinnulausir og í 75% starfi og það eiga menn að nýta miklu meira hjá hinu opinbera.

Ég spurði þáverandi hv. þm. Ögmund Jónasson, sem nú er hæstv. innanríkisráðherra, að því hvort það væri í undirbúningi hjá BSRB, sem hann þekkir til, að fara í svona aðgerðir til að mæta þeim mikla niðurskurði sem var fyrirsjáanlegur hjá ríkinu, þ.e. að taka upp hlutaatvinnuleysisbætur. Svo komst það í lög og það er ágætt, en núna sýnist mér að menn séu að hverfa frá því aftur og það þykir mér miður vegna þess að eins og ég gat um eru fyrirtæki alltaf að lenda í vandræðum. Menn geta lent í vandræðum út af því að birgjar lenda í vandræðum eða þeir sem þeir selja til eða eitthvað slíkt þannig að hluti af rekstri er áhætta og því geta menn lent í vandræðum og þurfa að segja upp einhverjum hluta af starfsmönnunum. Þeir segja við starfsmenn: Heyrðu, við getum sagt upp 10%, en þá má það ekki. Svo er verið að víkka þetta í 20%, og hvað gerir fyrirtækið þá? Það segir þá upp tveimur í staðinn fyrir einum þannig að það er mjög slæm þróun að minnka hlutfallið stöðugt í staðinn fyrir að hafa það 10% eins og það var upphaflega. Það er hægt að færa rök fyrir því að það geti komið illa út að minnka hlutfallið sem menn mega vera atvinnulausir.

Svo er það hitt sem ég vildi gjarnan ræða án þess að tefja umræðuna mikið, það er þegar fyrirtæki lenda í gjaldþrotum eða þegar aðilaskipti verða að fyrirtæki, eins og kallað er. Menn geta gert kjarasamninga sem eru bara ekki framkvæmanlegir. Eitt gott dæmi eru t.d. þeir ríkisstarfsmenn sem eru með réttindi í B-deildinni. Það gæti ekki nokkurt einasta einkafyrirtæki borgað þau réttindi. Þetta eru 400 milljarðar ógreiddir og óskuldfærðir og ekki einu sinni í fjárlögum. Einkafyrirtæki gætu hugsanlega þurft að semja um niðurfellingu á þessum réttindum. Segjum að eitthvert fyrirtæki segði við starfsmenn sína eða hefði sagt einhvern tíma í fortíðinni: Við borgum lífeyri eins og hjá B-deildinni. Svo vex skuldbindingin og vex og fyrirtækið fer á hausinn. Hvað gera menn þá? Þá má ekki hvika frá réttindunum. Hvað gerist? Fyrirtækið fer bara beint á hausinn og allir starfsmennirnir missa vinnuna. Það er bara þannig. Ég held að stéttarfélög væru ekki tilbúin að hvika frá réttindum sínum. Réttindagæslan er svo óskapleg á þeim bæjum að þar er barist heiftúðugri baráttu um hvert einasta atriði og alltaf talað um að ekki megi skerða áunnin réttindi. En það er ákveðinn raunveruleiki í heiminum og það getur komið upp sú staða — segjum að þessi ríkisstjórn verði lengi við völd og hér fari allt í kaldakol, allt sé í frosti og allt stopp, þá neyðast menn til að skerða réttindi vegna þess að á bak við réttindin er alltaf traust atvinnulíf sem skilar miklum arði. Ég kom t.d. inn á stefnuna í sjávarútvegsmálum í morgun og benti á að arðsemi sjávarútvegsins væri hluti af arðsemi atvinnulífsins. Það gerir okkur síðan mögulegt að styðja alls konar góð mál eins og málefni fatlaðra og bæta þar í, og persónustýrða þjónustu og annað slíkt sem er mjög kostnaðarsamt og mjög réttlátt, en það gerir alltaf kröfu til þess að atvinnulífið sé arðbært. Hvað gerist ef atvinnulífið er ekki lengur arðbært? Þá getum við þurft að skerða fullt af þeim réttindum sem menn hafa samið um og áunnið sér. Þetta frumvarp gengur eiginlega þvert á það því að það má ekki bakka með áunnin réttindi.

Ég vildi setja þarna inn frekara ákvæði um að það yrði mildað eitthvað en það var ekki vilji til þess og í sjálfu sér styð ég þetta mál. Það er eðlilegt en ég vildi gjarnan að menn skoðuðu að það getur komið upp sú staða að menn verða hreinlega að bakka með áunnin réttindi, enda eru áunnin réttindi auðvitað eitthvað sem menn hafa áunnið sér og það sem þeir hafa áunnið sér geta þeir líka afsalað sér ef nauðsyn krefur. Það getur komið upp sú staða að við þurfum að bakka með heilmikið af þeim réttindum sem við höfum aflað okkur vegna þess hreinlega að atvinnulífið stendur ekki undir því. Það þarf sterkt og öflugt atvinnulíf til að halda uppi sterku og góðu velferðarkerfi og ég vil hafa sterkt og öflugt atvinnulíf. Ég vil hafa arðbært atvinnulíf sem græðir — ég nota það orð sem sumum finnst ljótt, mér finnst það fallegt, það minnir mig á gróður og grænt — þannig að mér finnst umræðan um sjávarútvegsmálin vera þannig að menn ætli markvisst að varpa arðseminni fyrir róða. Menn segja með rómantíska glýju í augunum að nú eigi allir að geta farið á trillunni sinni út á sjó og veitt þegar þeim dettur í hug.