139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Frú forseti. Okkur er uppálagt að reyna að vera stuttorð og kjarnyrt í dag. Ég hef reynt að vera það en þetta er svo stórt og mikilvægt mál að ég ætla að fá að taka dálítinn tíma í að kynna þetta efnismikla nefndarálit og þær breytingartillögur sem nefndin hefur lagt til við frumvarpið.

Í frumvarpinu er kveðið á um þríþætta réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Í fyrsta lagi er kveðið á um réttindavakt ráðuneytis sem fer með stjórnsýsluframkvæmd réttindagæslunnar. Í öðru lagi er kveðið á um svæðisbundna trúnaðarmenn sem fylgjast skulu með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og vera því innan handar við hvers kyns réttindagæslu. Í þriðja lagi er kveðið á um persónulega talsmenn sem lögráða fatlaður einstaklingur á rétt á að fá eigi hann vegna fötlunar sinnar erfitt með að gæta hagsmuna sinna. Persónulegur talsmaður styður fatlaðan einstakling við að gæta réttar síns og aðstoðar við persónuleg málefni eftir því sem til er tekið í sérstöku samkomulagi milli hins fatlaða einstaklings og persónulegs talsmanns.

Frumvarpið byggist á tillögu starfshóps sem skipaður var af félags- og tryggingamálaráðherra í nóvember árið 2007. Brýnt hefur verið að setja lög um réttindagæslu fatlaðs fólks og í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða sem kom út í ágúst 2010 gerir Ríkisendurskoðun alvarlegar athugasemdir við fyrirkomulag réttindagæslu fatlaðs fólks og telur hana í óviðunandi ástandi. Í nefndaráliti um frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, þar sem lagðar voru til breytingar vegna flutnings þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga tekur nefndin, þ.e. félags- og tryggingamálanefnd, undir þessar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Nefndin gerði auk þess veigamiklar athugasemdir við að ekki væri gert ráð fyrir því í frumvarpinu að trúnaðarmönnum yrði fjölgað og beindi því til ráðherra að tryggja að fjöldi þeirra væri nægilegur til að tryggja reglubundið eftirlit og heimsóknir til fatlaðra einstaklinga. Þá lagði nefndin til breytingar á starfssviði trúnaðarmanna sem henni þótti of þröngt samkvæmt frumvarpinu þar sem starfssvið þeirra átti einungis að taka til ákveðinna afmarkaðra sviða. Í ljósi vankanta sem voru á réttindagæslu fatlaðs fólks lagði nefndin til breytingu á frumvarpinu þess efnis að ráðherra skyldi leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um réttindagæslu eigi síðar en 1. mars 2011. Í fyrirliggjandi frumvarpi ganga réttindagæslumenn undir heitinu trúnaðarmenn í samræmi við 37. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. Nefndin telur heitið réttindagæslumenn falla betur að starfsskyldum samkvæmt frumvarpinu auk þess sem það undirstrikar að um nýtt og víðfeðmara starf er að ræða en það sem trúnaðarmenn höfðu með höndum áður. Leggur nefndin því til breytingu á þessu og verða trúnaðarmenn almennt nefndir réttindagæslumenn þessu til samræmis.

Í athugasemdum við fyrirliggjandi frumvarp kemur fram að stefnt sé að því að leggja fram frumvarp um aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk eigi síðar en 1. nóvember 2011 og er það einmitt í samræmi við ábendingar nefndarinnar áður í þessum efnum. Telur nefndin mjög mikilvægt að þetta náist og leggur því til ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verður skýrt á um skyldu ráðherra til að leggja frumvarpið fram á Alþingi eigi síðar 1. nóvember næstkomandi.

Nefndin skilaði ítarlegu nefndaráliti vegna þeirra lagabreytinga sem gerðar voru þegar þjónusta við fatlað fólk var færð frá ríki til sveitarfélaga. Þá lagði nefndin einnig til fjölmargar breytingar á frumvarpinu sem Alþingi samþykkti. Meðal þeirra var nýtt ákvæði til bráðabirgða við lögin þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar skal setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólk, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaáætlun og skilgreinda árangursmælikvarða.

Ég nefni þetta sérstaklega, frú forseti, til að árétta hversu mikið félags- og tryggingamálanefnd hefur unnið með þessi mál og telur þau mikilvæg og brýn. Vinnan við þetta frumvarp er í rauninni framhald á því starfi sem allir nefndarmenn félags- og tryggingamálanefndar haft lagt sig í líma við að gera vel.

Þau málefni sem hlutu mesta umfjöllun í nefndinni að þessu sinni eru: Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, réttindi fatlaðs fólks og frelsi þess til að taka eigin ákvarðanir, mannréttindi og yfirstjórn réttindagæslu fatlaðs fólks, eftirlit og eftirfylgni með réttindagæslu, réttindavakt ráðuneytis, réttindagæslumenn, réttindi fatlaðra barna, fjöldi réttindagæslumanna, starfsheiti, hæfisskilyrði og tilkynningar til þeirra sem og persónulegir talsmenn; réttur á talsmanni, störf talsmanns og samkomulag við hann svo og útlagður kostnaður talsmanna vegna starfa sinna. Þá ræddi nefndin jafnframt þann kostnað sem hlýst af samþykkt frumvarpsins og kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hér eftir verður alla jafna nefndur „samningurinn“, var undirritaður fyrir Íslands hönd 30. mars 2007. Stigin hafa verið nokkur skref í því að treysta réttindi fatlaðs fólks til samræmis við samninginn. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hann sé fullgiltur og að fullu lögleiddur hér á landi.

Í 12. gr. samningsins eru lagðar ríkar skyldur á aðildarríki samningsins að þeim sem vegna fötlunar sinnar eiga í erfiðleikum með að nýta sjálfir gerhæfi sitt sé tryggð aðstoð og stuðningur við það. Þar er þó jafnframt kveðið á um að gæta beri meðalhófs við gerð verndarráðstafana að því marki sem slíkar ráðstafanir hafa áhrif á réttindi og hagsmuni viðkomandi einstaklings.

Nefndin ræddi ítarlega þennan þátt og telur ljóst að með frumvarpinu sé leitast eftir að tryggja að fatlaður einstaklingur fái notið réttar síns til að taka eigin ákvarðanir en honum sé jafnframt veittur stuðningur til þess þurfi hann á því að halda. Nokkuð víða í frumvarpinu telur nefndin þó ekki gætt meðalhófs við gerð verndarráðstafana. Nefndin telur afar brýnt að undirliggjandi öllum ákvæðum og stefnumótun í málefnum fatlaðra sé sjálfstæði, sjálfræði og vilji hins fatlaða einstaklings til grundvallar. Telur nefndin orðalag ákvæðisins í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins ekki í samræmi við samninginn og þau réttindi sem honum er ætlað að tryggja og leggur því til þá breytingu að leita skuli eftir samþykki fatlaða einstaklingsins og persónulegs talsmanns hans sé hann til staðar. Á nokkrum stöðum í frumvarpinu eru breytingar af þessu tagi, þ.e. að tryggja að vilji og samþykki hins fatlaða einstaklings sé alltaf undirliggjandi. Nefndin leggur til breytingar á orðalagi í því sambandi, m.a. er varðar hlutverk persónulegs talsmanns um að styðja hinn fatlaða einstakling við að taka upplýsta ákvörðun. Með þessu er jafnframt tryggt að ákvæði frumvarpsins séu í samræmi við meginreglu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að þar sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks væri mannréttindasamningur væri eðlilegt að hann væri vistaður hjá ráðuneyti mannréttindamála, þ.e. innanríkisráðuneyti. Meðal verkefna þess ráðuneytis er að hafa yfirumsjón með lagabreytingum þegar þeirra er þörf vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga og skýrslugjöf til nefnda um framkvæmd þeirra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Þá var nefndinni jafnframt tjáð að í ljósi þessa væri eðlilegt að innanríkisráðherra færi með yfirstjórn réttindagæslu fatlaðs fólks og að yfirumsjón með réttindum fatlaðs fólks og réttindavakt væri hjá innanríkisráðuneyti. Telur nefndin ljóst að það sé ekki samræmanlegt samningnum að fara með réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem velferðarmál eða félagslegt málefni. Nefndin áréttar þann grundvallarskilning að um er að ræða mannréttindamál en ekki velferðarmál.

Í ljósi þessa telur nefndin mikilvægt að réttindagæslu fyrir fatlað fólk sé sinnt af aðila í stjórnsýslunni sem sinnir réttindavakt eða vernd og sérhæfir sig í mannréttindum. Það er ljóst að engin sérstök mannréttindastofnun er til staðar í þessu skyni en nefndin telur mikilvægt að skoðað verði hvort unnt sé að koma á fót stofnun sem þessari sem fari þá heildstætt með réttindavernd og réttindavakt. Hægt væri að fela henni réttindagæslu fyrir fatlað fólk og aðra hópa þar sem huga þarf sérstaklega að vernd mannréttinda. Ljóst er þó að allar hugmyndir um stofnsetningu mannréttindastofnunar eru á frumstigi og kalla á víðtækt samstarf ráðuneyta, hagsmunaaðila og fræðasamfélags.

Nefndin skoðaði sérstaklega hvernig innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið hafa sinnt og sinna virkri réttindavakt. Nefndin telur, eins og fram hefur komið, eðlilegra að þessi réttindavakt sé vistuð í innanríkisráðuneytinu sem mannréttindaráðuneyti. Veruleikinn er hins vegar sá að innan Stjórnarráðsins hefur í gegnum tíðina verið farið með alla umsýslu málefna fatlaðra sem velferðarmál og þar liggur þekkingin og reynslan og mannaflinn og þess vegna tekur tíma að byggja upp annars konar kerfi, sérhæfingu og þekkingu sem byggist á nálgun mannréttinda. Telur nefndin því ljóst að skipa þurfi sérstakan starfshóp til að vinna að þessum málum og leggja línurnar til framtíðar. Leggur nefndin því til ákvæði til bráðabirgða þess efnis að ráðherra komi á fót starfshópi sem skipaður sé m.a. fulltrúum velferðar- og innanríkisráðuneytis, fjölbreyttum hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum. Starfshópurinn hafi það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag réttindagæslu fyrir fatlað fólk með það fyrir augum að farið sé með réttindagæsluna sem mannréttindamál en ekki velferðarmál. Lagt er til að við vinnu sína leiti hópurinn til mannréttindasérfræðinga og sérfræðinga á sviði réttindagæslu, réttindaverndar og fötlunarfræða. Hópurinn skoði m.a. að færa réttindagæsluna til ráðuneytis mannréttindamála eða til þjóðbundinnar mannréttindastofnunar eða veita Mannréttindaskrifstofu Íslands lögformlegt hlutverk til að sinna réttindavernd. Hér er ekki er um tæmandi talningu að ræða en mikilvægt að starfshópurinn leiti leiða til að tryggja skilvirka og öfluga leið til að sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Þetta er sem sagt enn þá í mótun og í þróun. Nefndin leggur til að starfshópurinn ljúki vinnu sinni eigi síðar en 31. desember 2011 og skili þá skýrslu til ráðherra með tillögum og drögum að lagabreytingum og skýrsluna kynni ráðherra fyrir Alþingi í kjölfarið.

Nefndin ræddi líka mikið eftirlit með réttindagæslunni. Réttindavakt ráðuneytis er samkvæmt frumvarpinu ætlað að fara með eftirlitshlutverk með störfum réttindagæslumanna enda eru þeir ráðnir af ráðherra. Í a-lið 2. mgr. 3. gr. er kveðið á um að réttindavaktin skuli fylgjast með störfum réttindagæslumanna fatlaðs fólks og veita þeim ráðgjöf og leiðbeiningar eftir þörfum. Í athugasemdum við greinina kemur fram að gert sé ráð fyrir að hlutverk ráðuneytisins felist fyrst og fremst í eftirliti og yfirumsjón með réttindagæslu. Ljóst er því að sama ráðuneyti er falið eftirlit með þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og eftirlit með réttindagæslu. Telur nefndin mikilvægt að eftirlit með réttindagæslu sé fært frá ráðuneyti velferðarmála og vísar þar til þeirrar umfjöllunar sem ég nefndi áðan. Nefndin ítrekar enn og aftur í öllu þessu samhengi hversu brýnt það er að ljúka við fullgildingu og lögleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en sá samningur hefur verið leiðarljós nefndarinnar í þeim áherslum sem hún leggur.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að virk réttindavakt sé til staðar og eftirlit sé haft með störfum réttindagæslumanna, en einnig hve nauðsynlegt sé að réttindagæslumenn geti leitað ráðgjafar og leiðbeininga um störf sín til réttindavaktarinnar. Nefndin bendir á að samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð skylda á ríki til að grípa til aðgerða til að treysta réttindi fatlaðs fólks. Þá er jafnframt lögð áhersla á upplýsingagjöf ríkja til fatlaðs fólks auk þess sem ríkjum ber að vekja þjóðfélög til vitundar um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og meðfæddri göfgi. Telur nefndin mikilvægt að þeim verkefnum sem getið er í 3. gr. frumvarpsins verði sinnt í samræmi við samninginn en áréttar um leið að þar er ekki ætlunin að ganga inn á starfssvið hagsmunasamtaka fatlaðs fólk heldur vinna með þeim að þessum mikilvægu málum.

Nefndin ræddi mikilvægi þess að upplýsa samfélagið allt og breyta viðhorfum almennt og að réttindavaktinni sé falið það hlutverk, eins og ég nefndi, í samvinnu og samráði við hagsmunasamtök fatlaðra að bera ábyrgð á fræðslu- og upplýsingastarfi til að upplýsa almenning um réttindi fatlaðs fólks, vinna gegn staðalímyndum og fordómum og auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks. Leggur nefndin til breytingu þess efnis og bendir jafnframt á að ráðuneytið horfi til 8. gr. samningsins vegna þessa sérstaklega.

Fram til 1. janúar 2011 voru starfandi nokkrir trúnaðarmenn í sem jafngildir einu og hálfu stöðugildi við réttindagæslu fatlaðra. Nefndin telur vert að benda á að í framangreindu nefndaráliti sínu um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks leggi hún ríka áherslu á að trúnaðarmenn verði skipaðir hið allra fyrsta og starfandi trúnaðarmenn haldi áfram störfum þar til ráðherra hefði skipað nýja.

Það er fagnaðarefni að stöðugildum trúnaðarmanna hefur fjölgað til muna þótt óljóst sé hvort nóg sé að gert og þeir þurfi að vera fleiri. Starfandi trúnaðarmenn eða réttindagæslumenn, eins og þeir heita héðan í frá ef þetta frumvarp verður að lögum, eða þessar breytingartillögur, eru núna átta talsins víða um land í samtals 4,75 stöðugildum. Umsagnaraðilar gerðu margir hverjir athugasemdir við hversu fáir réttindagæslumenn væru, hversu stórum landsvæðum þeim væri ætlað að þjóna og hversu lítið starfshlutfall þeir hefðu. Nefndin tekur undir áhyggjur umsagnaraðila og áréttar mikilvægi þess að réttindagæslu fyrir fatlað fólk sé vel sinnt og að réttindagæslumenn séu nægilega margir til að fatlað fólk eigi greiðan aðgang að réttindagæslumanni og þeir geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Nefndin beinir því til velferðarráðherra að fylgjast vel með störfum réttindagæslumanna og gæta þess að fjöldi þeirra og starfshlutfall sé í samræmi við umfang starfsins. Lagt er upp með að kerfið sé í þessari mynd til reynslu í eitt ár og sé svo metið að ári loknu hvernig til hafi tekist, hvort fjölga beri réttindagæslumönnum og hverju þurfi að breyta. Það er afar mikilvægt að vel sé fylgst með þessari þróun.

Nefndin ræddi í þessu samhengi líka störf réttindagæslumanna og hæfiskröfur þeirra. Í gildandi lögum um málefni fatlaðs fólks er gerð sú krafa að trúnaðarmenn hafi þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðs fólks. Nefndin áréttar mikilvægi þess að ráðnir séu sem réttindagæslumenn hæfir einstaklingar sem hafa þekkingu í þeim málaflokki sem um ræðir. Áréttar nefndin mikilvægi þess að fræðsluhlutverki réttindavaktarinnar sé sinnt á skilvirkan og faglegan hátt svo að fatlaðir einstaklingar geti treyst á að réttindagæslumaður geti leiðbeint og aðstoðað þá með réttindi sín og málsmeðferð ef á þeim er brotið. Þá má ekki horfa fram hjá því í þessu samhengi að hagsmunasamtökum fatlaðs fólks er tryggð aðkoma að ráðningarferli réttindagæslumanna þannig að vonandi leggjast allir á eitt um að hlutirnir séu vel úr garði gerðir. Nefndin vill í þessu samhengi árétta að starfssvið og hæfi réttindagæslumanna snúi einnig að réttindum og þekkingu á réttindum fatlaðs fólks og leggur því til breytingu þess efnis.

Við nefndina voru viðraðar áhyggjur af því að form tilkynninga til réttindagæslumanna mætti ekki vera þess eðlis að það yxi fólki í augum að tilkynna teldi það að brotið væri á rétti fatlaðs einstaklings. Nefndin áréttar að ekki er eðlilegt að einungis verði hægt að tilkynna eftir einni ákveðinni leið og ákveðnu formi. Telji fólk að réttur fatlaðs einstaklings sé ekki virtur er mikilvægt að það geti tilkynnt það án mikils undirbúnings eða umstangs. Það er mikilvægt að orðalag ákvæðisins hvað þetta varðar sé ekki of þrengjandi og áréttað er að það sé sameiginleg skylda allra í samfélaginu að standa vörð um að mannréttindi séu virt.

Ekki er kveðið á um tilkynningarskyldu í fyrirliggjandi frumvarpi. Þar er aftur á móti talið upp hverjir geti tilkynnt auk þess sem kveðið er á um að hver sá sem verður vitni að atviki sem vekur grun um að verið sé að brjóta gegn réttindum fatlaðs einstaklings geti tilkynni atvikið til réttindagæslumanns. Nefndin telur ekki nægilega sterkt að orði kveðið enda þarf viðkomandi að hafa orðið vitni að ákveðnu atviki til að geta tilkynnt það réttindagæslumanni. Þá telur nefndin mikilvægt að um tilkynningarskyldu sé að ræða enda endurspegli það alvarleika mála þegar brotið er á mannréttindum fatlaðs fólks. Leggur nefndin því til breytingu þessu til samræmis.

Þá vík ég máli mínu að persónulegum talsmönnum. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að persónulegir talsmenn eru fyrst og fremst hugsaðir sem aðstoðarmenn sem þekkja fatlaðan einstakling. Nefndin áréttar að persónulegur talsmaður aðstoðar fatlaðan einstakling við að gæta réttar síns og við persónuleg málefni í samræmi við samkomulag þeirra á milli. Honum er ekki ætlað að hjálpa honum að taka ákvarðanir heldur veita hinum fatlaða einstaklingi stuðning til að taka sjálfur upplýsta ákvörðun. Þá er rétt að árétta að persónulegum talsmanni er ekki ætlað að koma í stað persónulegs aðstoðarmanns notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Ég hef þegar gert grein fyrir tillögum nefndarinnar að breytingu á orðalagi á vissum stöðum í frumvarpinu þannig að rík áhersla er á að hinn fatlaði einstaklingur taki ákvarðanirnar og hlutverk persónulegra talsmanna sé að styðja þær. Nefndin áréttar líka í þessu samhengi að hlutverk persónulegs talsmanns byggist á samkomulagi milli hins fatlaða einstaklings og talsmannsins á forsendum hins fatlaða. Því samkomulagi getur hinn fatlaði einstaklingur eða talsmaður hans hvenær sem er sagt upp. Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að réttindagæslumaður geti afturkallað umboð persónulegs talsmanns í samráði við réttindavakt ráðuneytis telji hann viðkomandi ekki gegna skyldum sínum gagnvart hinum fatlaða einstaklingi. Nefndin telur rétt að árétta að það sé hins fatlaða einstaklings að velja sér talsmann og það verði ekki gert nema með samþykki hans. Þar leggjum við einnig til breytingu.

Nefndin ræddi jafnframt það skilyrði frumvarpsins að um undirritað samkomulag væri að ræða. Telur nefndin mikilvægt að horfið sé frá þeim kröfum þar sem því verður ekki við komið, enda er ljóst að ekki geta allir skrifað undir slíkt samkomulag. Í 7. gr. er jafnframt kveðið á um að þegar réttindagæslumaður metur hinn fatlaða einstakling svo að hann geti ekki tjáð vilja sinn skuli haft samráð við nánustu ættingja eða aðstandendur við val á persónulegum talsmanni. Nefndin áréttar að ekki sé ætlunin að lögfesta ákvæðið til að ganga þvert á vilja hins fatlaða einstaklings enda skuli ávallt skýra ákvæðið í ljósi meginreglna samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og 12. gr. hans þar sem lögð er áherslu á gerhæfi hins fatlaða einstaklings og rétt hans til sjálfstæðra ákvarðana. Mat réttindagæslumanns kemur því einungis til þegar ljóst er að hinn fatlaði einstaklingur getur ekki eftir hefðbundnum leiðum, svo sem með tali eða skrifum, tjáð vilja sinn. Í slíkum tilfellum er eðlilegt að þeir sem standa einstaklingnum næst, sem umgangast hann og þekkja hann, áhugamál hans og persónuleika, hafi milligöngu um val á persónulegum talsmanni.

Nefndin leggur áherslu á að í reglugerð sé gerð nánari grein fyrir þeim atriðum sem persónulegur talsmaður þarf að hafa fengið fræðslu um áður en hann getur gengið frá samkomulagi við hinn fatlaða einstakling. Nefndinni var einnig kynnt að gert væri ráð fyrir því að allir persónulegir talsmenn fengju fræðslu í samræmi við ákvæði 7. gr. Þeir þurfa því að sækja námskeið til að geta orðið persónulegir talsmenn og á það við hvort sem um er að ræða nána aðstandendur, eins og foreldra eða systkini, eða einhvern annan. Þessu er mikilvægt að halda til haga og hnykkja hér á þar sem vilji hins fatlaða einstaklings liggur alltaf til grundvallar.

Varðandi kostnaðarþáttinn fór nefndin einnig yfir hann. Gert er ráð fyrir því að starf persónulegs talsmanns sé ólaunað en nefndin leggur áherslu á að settar verði skýrar reglur í reglugerð um hvaða kostnaður fáist endurgreiddur hjá persónulegum talsmanni, jafnvel þó að stefnt sé að því áfram að um sjálfboðaliðastarf sé að ræða. Um það er lögð fram breytingartillaga.

Það gætti ósamræmis í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofunnar við skipun réttindagæslumanna. Gert var ráð fyrir kostnaði vegna 3,5 stöðugilda en þegar er búið að skipa trúnaðarmenn í sem nemur 4,75 stöðugildum. Þeir eru skipaðir til eins árs og því ljóst að aukinn kostnaður verður af störfum þeirra á yfirstandandi ári. Nefndin hefur eins og ég sagði áður lagt áherslu á að náið verði fylgst með störfum réttindagæslumanna og þess gætt að fjöldi þeirra og starfshlutfall sé í samræmi við umfang starfsins. Telur nefndin engar líkur á því að störf þeirra verði með þeim hætti að unnt verði að fækka þeim á næsta ári og því ljóst að tryggja þarf nægilegt fjármagn til þessa þáttar réttindagæslunnar og miða þar við raunhæfar áætlanir.

Nefndin hefur jafnframt áhyggjur af því að ekki sé nægilegt fjármagn áætlað í fræðslu-, upplýsinga- og útgáfustarf réttindavaktarinnar sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins og beinir því til fjárlaganefndar að fá raunhæft kostnaðarmat frá velferðarráðuneyti og fjárlagaskrifstofu og tryggja nægilegt fjármagn í samræmi við umfang verkefna til að unnt sé að sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk svo vel sé.

Ég vil að lokum, frú forseti, bara segja að grunnforsenda í nálgun nefndarinnar og umræðum hefur verið sú að réttindi fatlaðs fólks séu mannréttindi og rauði þráðurinn í öllu sem við höfum gert er út frá sjálfstæði, sjálfræði og vilja hins fatlaða einstaklings og að samningur Sameinuðu þjóðanna sé í einu og öllu hafður til hliðsjónar, hann lögleiddur og fullgiltur. Breytingartillögur nefndarinnar snúa að því hvað varðar stór úrlausnarefni eins og hvar réttindagæsla fatlaðra skuli vistuð. Það er vissulega stórt mál og við erum að reyna að setja það í ákveðinn úrlausnar farveg og mun fjölbreyttur starfshópur skila af sér tillögum í því samhengi. Nefndin ræddi mikið um hversu mikilvægt það er að fá fjölbreytta talsmenn fatlaðs fólks og fræðasamfélagið til liðs við Stjórnarráðið og þá aðila sem skrifa frumvörpin og verður það grundvallaratriðið þegar við höldum áfram. Þetta er gríðarlega brýnt mál og enn er margt ógert og áframhaldandi vinna fram undan, en nefndin telur þetta mikilvægt framfaraskref og er því afar ánægð með að frumvarpið sé nú á dagskrá og vonandi verður það gert að lögum fyrir þinglok.

Mig langar rétt í blálokin að þakka öllum nefndarmönnum fyrir vandað og frábært samstarf. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hver og einn nefndarmaður hafi lagt metnað sinn í málaflokkinn í heild og í þetta mál, eins og önnur sem við höfum unnið að. Samstarfið hefur verið einstaklega ánægjulegt og allir lagst á árar við að ljúka þessu máli en hafa jafnframt séð það sem skref í rétta átt á langri vegferð fram undan sem nefndarmenn ætla að halda áfram að vinna að.

Ég þakka líka frábærum sérfræðingi okkar og ritara, Hildi Evu Sigurðardóttur, sem er einstök eins og við öll vitum, fyrir ómetanlegt framlag — reyndar held ég að flestir geti sagt það um starfsfólk Alþingis almennt, það er með ólíkindum hvað það er öflugt við að hjálpa okkur og liðsinna dag og nótt og um helgar. Þá segi ég máli mínu lokið.