139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þingmaður einmitt inn á eitt þeirra lykilatriða sem við höfum rætt mikið í nefndinni og var lagt til grundvallar því sem við vorum að reyna að gera. Þetta er vandmeðfarið, eins og hv. þingmaður hefur oft komið inn á, en grundvallarprinsippið er að það sé hinn fatlaði einstaklingur, vilji hans, sjálfræði og sjálfstæði, sem sé ávallt leiðarljósið. Þetta getur verið snúið, sérstaklega þegar mjög fáir skilja kannski hvernig hinn fatlaði einstaklingur tjáir vilja sinn. Þá er úrslitaatriði að það sé skylda allra sem koma að þessu kerfi að vita að löggjafinn hefur mælt skýrt fyrir um að það sé hinn fatlaði einstaklingur og vilji hans sem ráði.

Eins og við fengum að sjá og heyra í máli gesta þá kemur það fyrir að einstaklingur sem flestir mundu segja að geti ekki tjáð vilja sinn getur tjáð sig á sinn hátt og þá er lykilatriði að kalla til þá sem þekkja. En aðstandendum ber líka skylda til að fara að vilja hins fatlaða en ekki að eigin óskum, rétt eins og á við um okkur öll. Foreldrum okkar finnst við kannski oft gera strákapör, eða stelpupör, en það erum við sem sjálfráða einstaklingar sem eigum að ráða og krefjumst þess að ráða. Þannig á þetta við um okkur öll, fötluð sem ófötluð og allt litrófið.