139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[18:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar rétt aðeins til að taka til máls í þessu máli um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og vona að ég sé ekki að lengja umræðuna um of.

Við stóðum frammi fyrir ákveðnu tómarúmi varðandi trúnaðarmenn sem myndaðist eftir að málefni fatlaðra voru flutt til sveitarfélaganna frá ríkinu og þess vegna stóð hv. félags- og tryggingamálanefnd frammi fyrir þeim vanda að vinna vel og nákvæmlega og samt hratt. Það lá mikið á því að setja þetta kerfi á varanlegan grunn. Það tókst, frú forseti, með mjög góðri vinnu innan nefndarinnar, mjög góðu samstarfi sem hefur verið áréttað. Ég þakka ritara nefndarinnar sérstaklega fyrir óskaplega gott og mikið starf. Þetta tókst og hér held ég að sé komið frumvarp sem búið er að breyta mjög mikið og allt í góðu með aðstoð sérfræðinga. Ég tel að réttindagæslan fyrir þennan viðkvæma hóp sé núna í lagi.

Það er rétt sem hv. formaður nefndarinnar sagði í framsögu fyrir málinu, fatlað fólk er afskaplega misjafn hópur og fötlun er af mjög mismunandi toga. Þess vegna er erfitt að setja lög sem gilda jafnt fyrir allan hópinn en ég held að það hafi samt tekist.

Við erum búin að vinna þetta nokkurn veginn í tvo mánuði. Það vantar einn dag upp á að þetta hafi verið unnið á tveim mánuðum og ég held að það sé mjög góð vinna. Ég er mjög sáttur við það að kalla trúnaðarmennina, sem hétu það áður, réttindagæslumenn. Mér finnst trúnaður eitthvað svo persónulegt að ég kynni ekki við það ef ég fengi trúnaðarmann eða vin eða hvað það nú væri samkvæmt lögum frá Alþingi. Mér líst miklu betur á að fá réttindagæslumann samkvæmt lögum. Það liggur í orðinu að hann eigi ekki að vera trúnaðarvinur minn heldur á hann að gæta réttar míns og það finnst mér mjög jákvætt.

Ég nefndi fyrr í dag að við stefnum að mjög góðri þjónustu við fatlað fólk. Ég nefndi líka að útgjöld til þessa málaflokks hafa vaxið mjög mikið. Þegar minn flokkur var í forsvari fyrir ríkisstjórnina, var með forsætisráðherrann í 18 ár, jukust útgjöld til málefna fatlaðra á alla mælikvarða, tvöfölduðust á suma. Það var ekki vanþörf á því, frú forseti, því að staða fatlaðra var ömurleg 1991 og þar áður. Það hefur mikið áunnist en það er mikið óunnið eins og persónulega stýrð þjónusta og annað slíkt sem menn stefna að og sumir halda fram að sé jafnvel ódýrari en sú stofnanaveitta og miðstýrða þjónusta sem við veitum í dag.

Allt þetta byggir á því að undirliggjandi sé sterkt og arðsamt atvinnulíf sem getur borgað há laun, og bæði launþegar og fyrirtæki borgi mikla skatta þannig að menn geti haldið uppi metnaðarfullu starfi eins og hér er gert ráð fyrir og við getum vonandi haldið áfram. Þess vegna er mjög brýnt að allir hv. þingmenn hafi arðsemina að leiðarljósi og það er dálítið dapurlegt að heyra hæstv. sjávarútvegsráðherra halda því fram að arðsemin sé gamaldags fyrirbæri og menn geti látið hana fyrir róða. Ég er algjörlega á öndverðum meiði og ég tel að arðsemi sé það sem við þurfum að stefna að á öllum sviðum til að geta einmitt staðið undir svona metnaðarfullum áformum eins og við höfum gagnvart fötluðum. Ég skora á alla hv. þingmenn að styðja mál sem auka arðsemi í þjóðfélaginu og vera á móti málum sem minnka arðsemina eins og tveimur kvótafrumvörpum sem við ræddum hér í morgun.