139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim ræðumönnum sem hér hafa talað. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að við séum að ræða tillögu til þingsályktunar um ferðamálaáætlun þegar við sjáum hér á Austurvelli og nánast alls staðar þar sem við lítum í kringum okkur stóra hópa af ferðamönnum vera að skila gjaldeyri til þjóðarbúsins. Það er vitanlega mikilvægt fyrir okkur að við séum fókuseruð á það hvernig við viljum efla eða auka afraksturinn af ferðaþjónustunni og um leið hvernig við viljum stýra og stjórna því hvernig ferðamenn ganga um landið okkar, hvernig uppbyggingu er háttað og slíkt.

Þingsályktunartillögunni sem hér er til umræðu er skipt í nokkra liði og kafla og ber þar fyrst að nefna Innviði og grunngerð, Kannanir, rannsóknir, spár, Vöruþróun og nýsköpun og loks Markaðsmál. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér innviðum og grunngerð og ræði hvernig staða þeirra þátta er og mikilvægt að við séum sammála um að byggja upp þá grunngerð og þá innviði sem eru svo mikilvægir til að byggja á. Þetta er grunnurinn að störfunum í ferðamennskunni og afrakstrinum sem síðan verður til. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar verða að sjálfsögðu að leggjast á eitt með að efla greinina og við höfum séð að þegar á reynir og á þarf að halda geta þessir aðilar staðið saman sem einn. Nægir að horfa til þess þegar bregðast þurfti við eldgosinu í Eyjafjallajökli að þá var farið í samhent átak sem kallað var Inspired by Iceland sem vakti mikla athygli og lukku.

Við nefndarmenn gerum mikilvægi samgangna að umræðuefni í nefndarálitinu. Ekki er ofsögum sagt þegar maður segir að góðar samgöngur séu mikilvægur þáttur og ein af grunngerðunum sem þarf að huga að. Þó má ekki gleyma því heldur að hluti ferðamanna sækist í að koma til Íslands til að komast hreinlega hjá samgöngum, ef má orða það þannig, að fara á fjöll og slíkt. Engu að síður vill stærsti hlutinn komast leiðar sinnar með öðrum hætti eða sjá meira af landinu og þá skiptir miklu máli að allir landshlutar séu þokkalega tengdir og bjóði upp á að þeir séu heimsóttir. Hér er einnig rætt um öryggismálin og hefur verið farið ágætlega yfir þann hluta. Mikilvægt er að við áttum okkur á þeirri stöðu sem getur komið upp við náttúruhamfarir og þess háttar. Vil ég í því sambandi skjóta því inn og minnast á mál sem hér hefur verið lagt fram um öryggisáætlun fyrir Ísland og skilgreiningu á löggæslu því að það tengist þessu a.m.k. á óbeinan hátt.

Síðan er rætt um kannanir, rannsóknir og spár og ég ætla aðeins að geyma það. Um vöruþróun og nýsköpun er rætt í þriðja meginkaflanum og er ljóst að þar eru mikil tækifæri fram undan. Mjög ánægjulegt er að sjá hve margir ferðaþjónustuaðilar hafa verið hugmyndaríkir í að þróa sína vöru og þjónustu. Að sjálfsögðu þarf að halda utan um það starf og hlúa að þeim sem það geta og vilja en líklega eru engir betur til þess fallnir en einmitt þeir sem starfa í greininni að þróa áfram sínar hugmyndir og þau verkefni sem þeir standa að. Og það er að sjálfsögðu mikilvægt að við leitum leiða til að tryggja fjármuni til að vöruþróun og nýsköpun geti verið í eðlilegu horfi.

Markaðsmálin eru ein af stóru málunum þegar við ræðum ferðaþjónustuna. Færð hafa verið rök fyrir því að varhugavert sé að fara í miklar markaðsherferðir þegar við getum varla tekið við þeim ferðamönnum með góðu móti sem hingað koma í dag. Engu að síður er mjög mikilvægt að alltaf séu tryggðir ákveðnir fjármunir og það sé ákveðið plan í gangi varðandi markaðssetninguna þannig að við drögumst ekki aftur úr. Ef það er svo að við ráðum varla við að taka á móti þeim fjölda sem hingað vill koma hlýtur að vera hvetjandi fyrir Íslendinga að búa þannig um hnútana að hver ferðamaður skili þá meiru í kassann en hann gerði áður.

Aðeins um kaflann Kannanir, rannsóknir og spár. Varðandi þessa starfsemi eða þessi störf eins og mörg önnur er mjög mikilvægt að til sé gagnagrunnur til að vinna í raun það sem rætt er í öðrum liðum til að átta sig á hvað þarf að vera til staðar í innviðum og grunngerð, vöruþróun og nýsköpun og eins varðandi markaðsmálin. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þar höfum við ekki staðið okkur sem skyldi. Á 138. löggjafarþingi lagði sá er hér stendur fram fyrirspurn til iðnaðarráðherra um rannsóknir í ferðaþjónustu í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Það kom verulega á óvart að sjá hvernig skiptingin er milli atvinnugreina. Þegar skoðað er framlag til rannsókna í nokkrum atvinnugreinum — og þá er stuðst við rannsóknarvog RANNÍS árin 2005 og 2007 — kemur fram að af þeim fjármunum sem renna til rannsókna í helstu atvinnuvegum, svo sem fiskveiðum, landbúnaði, iðnaði, orkuframleiðslu og dreifingu og ferðaþjónustu, fara einungis 0,5% í rannsóknir í ferðaþjónustu. Á árunum 2005 og 2007 samkvæmt þessu svari er framlag til rannsókna í ferðaþjónustu, þar með talið styrkir og launakostnaður vegna rannsóknarvinnu, rétt rúmar 364 þús. kr. Ég vil leyfa mér að segja að það er grafalvarlegt mál að við skulum ekki sinna betur rannsóknum í ferðaþjónustu. Rannsóknir á þeim vettvangi, og við þurfum að sjálfsögðu að þróa rannsóknir á gagnagrunni, eru mjög mikilvægar til að byggja á til framtíðar.

Þetta kemur fram og er gert að umtalsefni á bls. 19 í þingsályktunartillögunni sjálfri og, með leyfi forseta, ætla ég að fá að lesa lokasetninguna sem er svohljóðandi:

„Ferðaþjónustan kallar eftir að aukinn kraftur verði settur í gagnaöflun og rannsóknir og bendir á að án greininga og rannsókna séu forsendur vöruþróunar, nýsköpunar og markaðssetningar mjög veikar.“

Ég held að það sé rétt að orði komist þarna. Það er mjög mikilvægt að við styrkjum rannsóknir í ferðaþjónustu til muna og ég mæli eindregið með því að svo sé gert.

Í tillögunni er einnig kafli sem nefnist Áherslur landshluta. Ég ætla ekki að fara djúpt í það, ég vil þó koma því hér á framfæri að skiptar skoðanir eru úti í landshlutunum um innihald þessa kafla og ekkert meira um það að segja. Þetta er ferðamálaáætlun til nokkuð langs tíma og mun þar af leiðandi væntanlega taka einhverjum breytingum.

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þessi áætlun skuli vera komin á þennan stað. Ég vil ítreka það að ég legg þunga áherslu á að við leitum leiða til að efla rannsóknir í ferðaþjónustunni því að án þeirra, án athugana, án rannsókna, er erfitt fyrir okkur að sjá hvar við þurfum að styrkja okkur og það hlýtur að vera eitt af meginverkefnum okkar á næstu árum.