139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[19:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræður sem hafa verið fluttar varðandi þessa tillögu. Ég er aðili að þessu nefndaráliti án fyrirvara en tek hins vegar undir það með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að það er mikilvægt að setja sér raunhæf markmið. Við þekkjum það ágætlega, af sögu háleitra markmiða, að þau hafa því miður ekki alltaf gengið eftir og er þá mikilvægara að setja sér markmið sem eru raunhæf og vinna að því að ná þeim fram.

Hér segir að stefnt skuli að orkuskiptum þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst af hólmi. Nú er það þannig að innlendir orkugjafar, í það minnsta í dag, eru einna helst rafmagn. Við þekkjum síðan metanstarfsemina og meðal annars er hægt að keyra metanbíla á höfuðborgarsvæðinu. Gerðar hafa verið tilraunir með vetnisstrætó og vetnisbíla og síðan er það lífdísill svo að eitthvað sé nefnt.

Það er mjög mikilvægt að við höldum vöku okkar og reynum að ná því markmiði að minnka útblástur frá samgöngutækjum, ekki síður en öðrum farartækjum. Þá vil ég taka inn í það almennan akstur, fiskiskip, flugvélar og þess háttar en það verður að sjálfsögðu að vera raunhæft.

Ég hef líka haft töluverðar áhyggjur af því að þrátt fyrir mjög góð markmið og eðlilega sýn á framtíðina, að reyna að búa til orkugjafa innan lands, svo sem eins og lífdísil, er mjög mikilvægt að fórna ekki í slíkt landsvæði eða landi sem við þurfum að nýta til matvælaframleiðslu. Það þarf að forgangsraða í þessu þegar kemur að skipulagsmálum. Ég vil segja það, frú forseti, að það er mjög mikilvægt að höfðað sé til þeirra sem fara mjög framarlega í baráttunni fyrir því að búa til lífdísil á Íslandi, til dæmis með því að rækta repju eða eitthvað slíkt, að huga að því hvort landsvæði sem tekin eru undir þá ræktun séu til þess fallin að rækta matvæli í einhverju formi. Ég er alls ekki að gera lítið úr því að tilraunastarfsemi þessi er mjög mikilvæg og við eigum að prófa hvað við getum framleitt af repju og slíku til að búa til orkugjafa hér. En ég vil hins vegar vara við því að land sem hægt er að nota til beitar eða matvælaframleiðslu sé lagt undir það án þess að áætlanir um hitt liggi fyrir.

Í nefndarálitinu eru lagðar til ákveðnar breytingar sem hugnast mér mjög vel, þ.e. að draga úr þeim yfirlýsingum sem í þessu eru án þess að gera neitt lítið úr markmiðinu. Einnig er lögð til breyting á viðmiðunarmarkmiði því sem er sett fram, þ.e. hvernig Evrópusambandið ætlaði að haga sínum hlutum enda lá ekki ljóst fyrir hvernig það hefði gengið þegar á hólminn var komið því að tölurnar sem hér eru inni eru viðmiðun 2010, hvað Evrópusambandið ætlaði að vera búið að koma sér í þá.

Ég vil líka ítreka það sem kemur fram að skattaílvilnanir og hvati í kerfi því sem er smíðað nái til allra landsmanna. Það er vitanlega ljóst að hægt er að gera ákveðna hluti í þéttbýlinu sem ekki er hægt í dreifbýlinu eins og þegar kemur að almenningssamgöngum og þess háttar. Það verður að horfa til þess að mörg landsvæði á Íslandi bjóða ekki upp á þann valkost að breytt verði úr öflugum og kröftugum bílum yfir í litla sparneytnari bíla, hreinlega út af aðstæðum. Þess vegna verður að horfa til þess að þessum aðilum verði ekki mismunað. Það er kannski erfitt en í það minnsta er hægt að hvetja til þess að það verði ekki gert.

Ég vil, frú forseti, koma því á framfæri að við ræðum um orkuskipti í samgöngum á sama tíma og svar berst inn í þingið við fyrirspurn sem ég lagði fram um jöfnun raforkuverðs. Ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér það svar því að þar kemur fram, af því að við tölum hér um orku, að við eigum töluvert langt í land með að jafna búsetuskilyrði landsmanna og það vantar helming, það þarf að tvöfalda þær upphæðir sem eru notaðar í niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði að ekki sé talað um jöfnun á flutningskostnaði.

Ég hefði viljað sjá að við værum með háleitt markmið sem hægt væri að ná varðandi þessa jöfnun. Á sama tíma og við setjum okkur þau góðu markmið að skipta út orkugjöfum sem menga er eðlilegt að krefjast þess að ríkisvaldið setji fram áætlun um hvernig ná eigi jöfnuði meðal landsmanna þegar kemur að notkun á hinum hefðbundnu orkugjöfum sem eru í dag á Íslandi, rafmagni, heitu vatni og þess háttar.

Frú forseti. Þetta eru ágæt markmið sem hér eru sett fram. Nefndin leggur til ákveðnar breytingartillögur sem miða að því að gera þessi markmið raunhæfari en þau eru í dag. Að öðru leyti vil ég lýsa því yfir að hugmyndafræðin í þingsályktunartillögunni er mjög góð en ég hvet til þess að raunsæis sé gætt og horft sé til fleiri þátta þegar við ræðum orkumál hér á landi.