139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi gera að umtalsefni vinnubrögðin í þinginu á síðustu dögum fyrir sumarhlé. Við fjölluðum á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í gær um hið svokallaða minna frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra í sjö og hálfa klukkustund, bæði um morguninn og svo langt fram á nótt. Aftur hófum við vinnuna í morgun og til að segja alveg eins og er eru allir umsagnaraðilar sem hafa komið á fund nefndarinnar, við höfum fengið marga gesti, með neikvæð viðhorf í garð þessa frumvarps, telja það vanbúið, brjóta stjórnarskrá og annað í þeim dúr. Það er alveg með ólíkindum, frú forseti, að við séum að fjalla um þetta mál og það sé verið að tala í fjölmiðlum og út í frá um að það eigi að klára það á næstu sólarhringum þegar það er frágangssök að koma nálægt þessu máli. Þetta er ekki hægt. Þetta er ofbeldi framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Við erum ekki að vanda vinnubrögðin. Við stöndum eins og einhver afgreiðslustofnun og hlustum á hvern gestinn á fætur öðrum koma fyrir nefndina og segja okkur að það sé ekki hægt að gera þetta svona, það brjóti stjórnarskrá og skili ekki nokkrum árangri, það sé algjörlega óljóst fyrir hverja verið sé að setja þessi lög og það sé ekkert markmið í þessu frumvarpi, ekki neitt.

Til hvers erum við í svona vinnubrögðum? Er það þetta sem mun skila okkur áfram í endurreisn atvinnulífsins?

Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, að við á þinginu verðum að taka völdin í okkar hendur. Það er ekki hægt að standa svona að vinnubrögðunum hér inni, það er ekki hægt. (Gripið fram í: Öll völd til ráðamanna.)