139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er vitanlega algerlega óþolandi þegar þingnefndir funda með þeim hætti sem gert er núna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, ég held að það hafi verið fundað til kl. 1 eftir miðnætti í gærkvöldi. Gestir eru teknir inn og þetta er allt gert í miklum flýti. Gestir fá sólarhring eða tvo til að skila álitsgerðum um einhverjar mestu breytingar sem verið er að gera á grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Er það þannig, frú forseti, sem við ætlum að vinna í þinginu í framtíðinni? Er það þannig sem við ætlum að láta hlutina gerast, að fara á einhverju hundavaði yfir svo stórt mál sem hér er um að ræða?

Það er vitanlega erfitt og í raun mjög sorglegt að horfa upp á að þegar verið er að semja um frágang á ýmsum þingmálum og reyna að ljúka þingstörfum gefi forsvarsmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar það í skyn í fjölmiðlum að frumvarpið muni klárast á helginni. Virðulegur forseti þarf þá að fara að gera grein fyrir því hvort við ætlum að funda hér á föstudag eða laugardag. Frá því hefur ekki verið gengið og um það hefur í rauninni ekki verið rætt.

Það er algerlega óþolandi, frú forseti, hvernig haldið er á málum, sérstaklega þegar kemur að þessari nefnd sem nú er að störfum. Við hljótum að gera þá kröfu að þá verði unnið faglega og farið vandlega yfir þær athugasemdir sem koma fyrir nefndina. Eins og þingmenn sem eiga sæti í nefndinni lýsa því er tekið við athugasemdum og þær eru allar á einn veg, menn eru á móti þessu frumvarpi og finna því allt til foráttu. Samt sem áður heyrum við í fjölmiðlum að það eigi að gera þetta mál að lögum, það skuli klárast á þessu þingi áður en sumarið gengur í garð. Það er óásættanlegt, frú forseti, og ber vott um það að þingið setur niður þegar kemur að vinnubrögðum.