139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka upp umræðuna sem hv. þm. Baldur Þórhallsson kom með hingað inn um EES og Evrópusambandið. Evrópusambandið er ágætissamband, það hefur náð sínu markmiði, það hefur ekki orðið styrjöld í 65 ár í Evrópu. Það var markmið Evrópusambandsins. Styrjaldir eru ekkert vandamál á Íslandi.

Og draumur hv. þingmanns um áhrif á löggjöf í Evrópusambandinu er bara draumur. Þar ráða Þjóðverjar nr. 1, Frakkar, Spánverjar og Bretar nr. 2 og svo einhvers staðar lengst aftast eru Finnar. Íslendingar mundu ekki ráða neinu þótt þeir gengju þarna inn. Þeir gætu hins vegar í dag, nákvæmlega eins og þá, haft frumkvæði og komið með snjallar lausnir á lagasetningu. Við höfum lent í innlánstryggingakerfinu sem Evrópusambandið hannaði og við getum bent þeim á galla þess — en það hefur ekki verið gert. Menn hafa ekki einu sinni notað þau tækifæri sem þeir hafa.

Ég hef áður heyrt um drauminn um stórveldið í sjávarútveginum. Þetta heyrðist í útrásinni, þá voru Íslendingar einhvern veginn sérstakir í fjármálum. Ég hugsa að Spánverjar þykist hafa miklu meira vit á sjávarútvegi en Íslendingar. Ég efast ekki um það. Eflaust gætu Evrópuþjóðirnar lært eitthvað af okkar ágæta fiskveiðistjórnarkerfi, en það mundi ekki hindra þá í að breyta því tíu árum seinna þannig að Spánverjar mættu veiða á Íslandi. Nema hvað?

Ég bendi á að Íslendingar hafa 600 ára reynslu af því að vera í sambandi við þjóð í Evrópu. Það var ekki góð reynsla. Samt voru Norðmenn og Danir ekki slæmar nýlenduþjóðir, langt því frá. Það sem gerðist var að valdið var langt frá Íslandi, eins og það verður núna, það verður í Brussel, og þeir sem eru með valdið í höndunum gleyma Íslandi í önnum dagsins.