139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna sem hófst með ræðu hv. þm. Baldurs Þórhallssonar um Evrópusambandið og þá vinnu sem er í gangi um hugsanlega aðild Íslands að því. Ég vil byrja á að rifja það upp að eins og þingheimi er að sjálfsögðu kunnugt eru skiptar skoðanir um það mál innan stjórnmálaflokka og milli stjórnmálaflokka. Svo er líka í samfélaginu öllu og það er eðlilegt að. Það er eðlilegt að sú rökræða fari fram á hinum pólitíska vettvangi, líka í sölum Alþingis.

Það sem mér finnst hins vegar skipta afar miklu máli í því efni er að Alþingi ákvað sumarið 2009 að við skyldum sækja um aðild að Evrópusambandinu og síðan skyldi þjóðin leiða það mál til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Burt séð frá því hvaða skoðanir við kunnum að hafa á Evrópusambandinu og hvaða afstöðu hvert og eitt okkar mun taka þegar samningsniðurstaða liggur fyrir er mjög mikilvægt að við vöndum til verka í þeirri vinnu sem við erum í (Gripið fram í.) og reynum að skila þjóðinni eins góðri afurð og unnt er. Það eru hagsmunir allra.

Það eru að sjálfsögðu líka hagsmunir þeirra sem berjast gegn aðild að Evrópusambandinu að niðurstaðan sé þannig að þjóðin standi frammi fyrir tveimur góðum kostum, hvort sem hún segir já eða nei. Það er mjög mikilvægt. Það geta ekki verið hagsmunir og það getur ekki verið málflutningur einstakra þingmanna að þeir vonist til þess að niðurstaðan verði vond þannig að ef þjóðin tekur til dæmis samt sem áður ákvörðun um að samþykkja samninginn bíði hennar ekki góð framtíð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Af hverju ekki …?) (Gripið fram í.)

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að við vöndum til verka. Við höfum leiðsögn Alþingis í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar að leiðarljósi í öllum málaflokkum, m.a. í hinum erfiðu og ögrandi málaflokkum sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, og tökum mið af þeirri leiðsögn sem Alþingi hefur veitt í því efni.

Þar sem ég kem mun ég leggja mig fram um að vinna í þeim anda, alveg burt séð frá því hver afstaða mín er svo og míns flokks (Forseti hringir.) til aðildar að Evrópusambandinu þegar það kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu.