139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir með þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa komið upp og gagnrýnt vinnubrögð í þinginu, ekki sérstaklega út af því máli sem þau tóku til umræðu, fiskveiðistjórnarmálinu, heldur almennt. Ég tel að eitt af því brýnasta sem við þurfum að gera í þessari virðulegu stofnun sé að taka starfshætti okkar til alvarlegrar endurskoðunar. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Það eru ekki bara fiskveiðistjórnarmálin, alls konar mál fljóta í gegn á síðustu dögum þingsins og það væri ósatt að segja að við hefðum það ráðrúm og þann tíma sem við þurfum til að hugleiða þessi mál. Þessi lenska hefur verið í þinginu um áraraðir. Þetta er nokkuð sem við ætluðum okkur að breyta en höfum ekki gert. Nú er kjörtímabilið hálfnað og ég skora á félaga mína sem styðja ríkisstjórnina til að bæta úr og ég skora á framkvæmdarvaldið að koma fyrr með mál inn í þingið á næsta ári þannig að við höfum tíma til að fara yfir þau og gaumgæfa vel og vandlega það sem við erum að gera hér. Það á væntanlega að standa til langrar framtíðar og þetta er hið alvarlegasta mál.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á Evrópumálin. Ég ætla einfaldlega að segja að ég skil ekki það fólk sem heldur að þjóð skipti ekki máli þótt lítil sé. Það er annað að vera inni í fundarherberginu en frammi á gangi þegar ákvarðanir eru teknar. Við hljótum að sjá það sjálf hér að aðstoðarmenn sem fylgja til dæmis ráðherrum á fundi hafa ekki mikið um það að segja hvað sagt er hér inni þó að þeir geti hvíslað að þeim frammi. Kannski fer ráðherrann ekki eftir því sem honum var sagt, eða henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: … embættismönnum.)