139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir þá nálgun sem hv. þm. Baldur Þórhallsson var með í Evrópusambandsmálunum áðan og það sem hann sagði um tengsl Íslands við Evrópusambandið. Það sem mest er um vert núna er að áralöng umræða um það hvernig hagsmunum landsins sé borgið í sambandi við Evrópusambandið verði leidd til lykta með lýðræðislegum hætti eins og hérna hefur komið fram, með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrir tveimur árum tók Alþingi með fulltingi þingmanna úr öllum þingflokkum ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Núna í júlí eru komin tvö ár. Okkur ber skylda til að gera hvaðeina úr því til að ná sem allra bestum samningi í stað þess að reyna í sífellu að laska ferlið og gera það tortryggilegt eins og lenska er í þjóðfélagsumræðunni í dag. Ég tel sjálfur að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins en við það meingallaða fyrirkomulag sem EES-samningurinn sannarlega er. Hann var biðleikur eins og fram kom á sínum tíma, að mörgu leyti baneitraður biðleikur, og það var mikil þjóðarblekking að það væri besta mögulega staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu þegar fram í sækti enda núna liðnir tæpir tveir áratugir frá því að sá samningur var gerður. Sú aukaaðild er um margt óheppileg og gagnast ekki lengur nema að litlu leyti. Því ber okkur skylda til að freista þess að ná sem allra bestum samningi þar sem við tryggjum bæði hagsmuni sjávarútvegsins, landbúnaðarins eins og hérna hefur komið fram ítrekað í umræðunni og hvað varðar upptöku evru í stað krónu.

Viðkvæmasti og erfiðasti málaflokkurinn verður sjálfsagt landbúnaðarmálin. Við þurfum að leggja mikla vinnu í að tryggja sem allra best hagsmuni landbúnaðar eftir að tollvernd fellur niður með auknum beingreiðslum og öðrum slíkum stuðningi. Um þetta þurfum við að ná samstöðu þvert á flokka og ná umræðunni upp úr þeim skotgröfum sem hún gjarnan er sett ofan í á Alþingi og víðar, ræða þetta á málefnalegum forsendum og ná fyrir Ísland sem allra bestum samningi við Evrópusambandið.