139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekkert nýtt að Evrópusambandssinnar haldi því fram að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið til að hafa áhrif vegna þess að stærstur hluti ESB-gerða hafi verið tekinn upp í íslenskan rétt í gegnum EES-samninginn.

Ég lét taka þetta saman fyrir mig í tölum á 131. löggjafarþingi, 2004–2005, og spurði hversu margar gerðir Evrópusambandið hefði samþykkt á árunum 1994–2004. Samkvæmt upplýsingum úr lagagagnagrunni Evrópusambandsins voru þær 38.936.

2.527 þessara gerða höfðu verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt honum, þ.e. 6,4%. Einungis í 101 tilviki, 0,2% tilvika, kallaði slík innleiðing á lagabreytingu hér á landi. Þetta eru þær staðreyndir sem liggja fyrir í málinu og það er mikilvægt að þeir sem blanda sér inn í umræður um Evrópusambandið og halda því fram að stærstur hluti reglna Evrópusambandsins hafi verið tekinn upp í íslenskan rétt séu með réttar tölur og réttar staðreyndir í málinu. Því var ekki til að dreifa hjá hv. þm. Baldri Þórhallssyni í hans ágætu ræðu áðan.

Ég vil síðan segja það um málið að öðru leyti að ég held að það sé mikið ofmat að Íslendingar verði einhvern tímann stórveldi á sviði sjávarútvegsmála eða í öðrum málaflokkum innan Evrópusambandsins. Við munum fá fjóra til fimm þingmenn af 800 á Evrópuþinginu og það sér hver maður að slík þjóð verður ekki stórveldi á þeim vettvangi. (Gripið fram í.)

Ég vil síðan segja við hv. þingmann að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum í sambandi við Evrópumálin. Örvæntingin er öll hjá Samfylkingunni og ég minnist þess að hún er svo mikil að það er ekki langt síðan að hæstv. forsætisráðherra, (Forseti hringir.) formaður flokksins, bauðst til að leggja Samfylkinguna niður og stofna nýjan flokk með nýju nafni. Formaður stjórnmálaflokks (Forseti hringir.) sem þannig talar til eigin flokksmanna mundi ekki endast út daginn annars staðar.