139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Evrópumálefni -- vinnubrögð í nefndum -- svar við fyrirspurn o.fl.

[11:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að blanda mér inn í þessa stórkostlegu Evrópuumræðu sem hefur átt sér stað hér í dag. Hér er talað um að Íslendingar geti orðið stórveldi á sviði sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins. Ég minni hv. málshefjanda, hv. þm. Baldur Þórhallsson, á að við Íslendingar erum stórveldi í sjávarútvegi. Íslendingar eiga 40% af heildarafla Evrópusambandsins þannig að vitanlega erum við stórveldi og hag okkar er best borgið fyrir utan Evrópusambandið því að nú er ríkisstjórnin farin af stað með aðlögunarferli að hinu gamla Evrópusambandi. Ég minni á að árið 2014 verður Lissabon-sáttmálanum breytt sem er nokkurs konar stjórnarskrá Evrópusambandsins og þá tekur við nýtt Evrópusamband. Hér hefur ríkisstjórnin talað fyrir því að hin svokallaða þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram árið 2013. Ef að því kemur koma Íslendingar til með að greiða atkvæði um hið gamla Evrópusamband.

Svo getum við farið yfir það hverju Samfylkingin lofaði þegar þessi mál voru á dagskrá. Það átti að fá hraðferð inn í Evrópusambandið, gengið átti að styrkjast, evran var handan við hornið bara við það eitt að leggja inn umsókn.

Frú forseti. Ekkert af þessu hefur gerst.

Til að leysa málið því að framsóknarmenn eru miklir samvinnumenn og tala fyrir sátt í samfélaginu langar mig til að segja þingheimi að í dag verður dreift í þinginu breytingartillögu með nýrri dagsetningu að þjóðaratkvæðagreiðslu við þingsályktunartillögu sem ég hef þegar lagt fram um að Íslendingar fái að ganga að kjörborðinu strax og greiða atkvæði um það hvort halda eigi áfram með þetta ferli eða ekki. Nú hef ég breytt dagsetningunni í þriðja sinn og stendur í þingskjalinu: (Forseti hringir.) til 1. desember. Ég skora á formann utanríkismálanefndar Árna Þór Sigurðsson að taka málið á dagskrá í utanríkismálanefnd og koma því inn í þingið.