139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Evrópumálefni -- vinnubrögð í nefndum -- svar við fyrirspurn o.fl.

[11:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða ástandið á gossvæðunum á Suðurlandi. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, starfandi formanni umhverfisnefndar, hvaða áform séu uppi um uppgræðslu og gróðurstyrkingu til að koma í veg fyrir það mikla öskufok sem er þarna á svæðinu.

Ég kom frá Vestmannaeyjum í gær. Það var brúnt yfir að líta þegar maður horfði í átt að Eyjafjöllunum. Síðan hef ég heyrt úr Skaftárhreppi að þar hafi staðan verið mjög slæm og að það hafi verið mjög hvasst undanfarið. Landgræðslan fékk töluverða fjármuni í fyrra til að vinna að uppgræðslu undir Eyjafjöllunum en hefur núna hins vegar verið í ákveðinni óvissu um fyrirætlanir, bæði varðandi nauðsynlega uppgræðslu undir Eyjafjöllunum og náttúrlega þessa erfiðu stöðu sem er sérstaklega fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fólk þar kallar hreinlega eftir að heyra til hvaða aðgerða stjórnvöld ætla að grípa til að binda öskuna.

Stuttu áður en gos hófst í Grímsvötnum fóru þingmenn Suðurkjördæmis og þingmenn í allsherjarnefnd og heilbrigðisnefnd í heimsókn til þeirra bæja sem fóru verst út úr gosinu undir Eyjafjallajökli. Við stoppuðum mjög stutt við á þessum bæjum, fórum út í 5–10 mínútur og urðum að flýja undan roki, sandi og ösku sem blés þarna um. Við þetta býr fólk dagsdaglega. Staðan er mjög erfið núna í Skaftárhreppnum. Við megum heldur ekki gleyma, eins og ég var að minnast á, hvernig staðan er undir Eyjafjöllunum.

Ég óska hér með eftir að fá upplýsingar. Ég vonast til þess að starfandi formaður (Forseti hringir.) umhverfisnefndar hafi einhverjar upplýsingar frá umhverfisráðuneytinu um það hvað stjórnvöld ætla sér að gera.